Innlent

Sýknaður af ákæru um að hafa hótað fyrrverandi eiginkonu ofbeldi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands á Selfossi.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands á Selfossi.
Karlmaður var sýknaður í Héraðsdómi Suðurlands í gær af ákæru um að hafa hótað konu því að senda til hennar handrukkara ef hún greiddi ekki skuld við sig. Karlmaðurinn sendi konunni skilaboð sem hljóðuðu orðrétt svona:

„…Ég ætla að vara þig við þú skalt borga lánið eða ég fæ innheimtumenn til að koma til þín og afgreiða það eftir þeirra leiðum…"

Konan lagði fram kæru í málinu í byrjun janúar síðastliðins, en maðurinn og konan höfðu verið gift í tíu ár en voru skilin. Hún sagði að sér hefðu borist fjöldi tölvupósta frá ákærða sem hafi innihaldið hótanir í hennar garð. Hann hafi hótað „handrukkurum með ónefndum afleiðingum" greiddi hún ekki lán sem hann væri ábyrgðarmaður að, eins og segir í frumskýrslu lögreglunnar.

Maðurinn viðurkenndi að hafa sent konunni fjölda tölvupósta og smáskilaboða vegna lánsins. Hann sagði að með orðinu „innheimtumenn" hafi hann átt við lögfræðinga eða lögfræðistofur - ekki handrukkara.

Héraðsdómur Suðurlands kemst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á að maðurinn hafi hótað konunni ofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×