Innlent

Heildsalar taka valfrelsi af neytendum

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Jóhannes Gunnarsson er formaður neytendasamtakanna.
Jóhannes Gunnarsson er formaður neytendasamtakanna.
Formaður Neytendasamtakanna segir heildsala vera að taka valfrelsi af neytendum með því að merkja ekki að vara sé með erfðabreyttum efnum eins og reglugerð kveður á um. Hann vonast til þess að eftirlitsaðilar fari að skoða merkingarnar markvisst.

Frá áramótum hefur innflytjendum verið skylt að merkja matvæli og fóður sem innihalda erfðabreytt efni. Nokkuð er flutt hingað til lands af matvælum frá Bandaríkjunum en þar er ekki skylt að merkja erfðabreyttan mat en hins vegar hefur lítið borið á merkingum eftir að reglugerðin tók gildi.

Í nýlegri könnun Neytendasamtakanna, Matvæla- og veitingafélag Íslands og Náttúrulækningafélag Íslands kom í ljós að níu af tólf vörum sem kannaðar voru innihéldu erfðabreytt efni án þess að vera merkt.

Jóhannes Gunnarsson er formaður neytendasamtakanna.

„Að sjálfsögðu veljum við vörur einkum og sér í lagi sem innihalda soja og maís, enda er meginið af soja og maís sem framleitt er í Bandaríkjunum erfðabreytt. Þannig að við veljum vörurnar út frá því sem ætla mætti að væri helst að finna í erfðabreytt efni í."

Hann segir innflytjendur vera að brjóta lög með því að vanrækja merkingar og vonast til þess að eftirlitsaðilar muni fylgja könnuninni eftir með markvissri rannsókn á þessum málum.

„Það er verið að taka valfrelsið frá neytendum. Við ætlum ekki að segja: Þið eigið að kaupa erfðabreytt eða ekki. Valið á að vera neytandans en til þess þarf hann að fá upplýsingar um það hvort þessi vara sé með erfðabreyttu efni. Ef það er ekki upplýst þá er verið að taka þetta val frá neytandanum og það líðum við ekki," segir Jóhannes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×