Enski boltinn

Demba Ba tryggði Newcastle þrjú stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Newcastle komst aftur á sigurbraut í ensku úrvalsdeildinni eftir 1-0 heimasigur á Norwich í dag. Newcastle hafði ekki unnið síðan í fyrstu umferð en var búið að gera jafntefli í undanförnum tveimur leikjum sínum.

Demba Ba skoraði eina mark leiksins á 19. mínútu eftir frábæra stungusendingu frá Hatem Ben Arfa. Demba Ba hefur nú skorað fjögur mörk í fyrstu fimm umferðum tímabilsins. 

Papiss Cissé, félagi hans í framlínunni á hinsvegar enn eftir að skora á tímabilinu og honum tókst ekki að komast á blað þrátt fyrir að fá að taka víti á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Mike Williamson fékk vítið en Papiss Cissé skaut langt yfir úr spyrnunni. Það kom á óvart að Hatem Ben Arfa tók ekki vítið enda búinn að skora úr víti á tímabilinu.

Norwich átti sína spretti í leiknum en liðið á enn eftir að vinna leik í deildinni. Chris Hughton, stjóri liðsins, var þarna að stýra Norwich-liðinu á móti sínum gömlu félögum í Newcastle en hann var rekinn frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×