Erlent

Hústökumaður fangelsaður í fyrsta sinn

BBI skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Mynd/AFP
Rúmlega tvítugur maður var nýverið dæmdur til fangelsisvistar í Bretlandi fyrir að gera hús sem hann átti ekki að dvalarstað sínum. Þetta er í fyrsta sinn sem hústökumaður er dæmdur eftir nýrri löggjöf um hústökur sem tók gildi 1. september í ár í landinu.

Það var Alex Haigh sem var dæmdur til 12 vikna fangelsisvistar fyrir hústöku en frá þessu er greint í breska blaðinu The Guardian. Breska lögreglan handtók Haigh ásamt tveimur öðrum í íbúð á Cumberland Street í byrjun september. Þeir voru allir ákærðir fyrir hústöku, Haigh hefur þegar verið sakfelldur en hinir tveir bíða dóms.

Löggjöfin sem um ræðir gerir hústökur refsiverðar, þ.e. að slá eign sinni á hús sem standa auð eða gera þau að dvalarstað sínum. Hér eftir liggur allt að sex mánaða fangelsi eða fimm þúsund punda sekt við hústökum í Bretlandi.

Talsmenn samtaka hústökufólks segja lögin ósanngjörn. ,,Þetta er sorgardagur í sögu þjóðar okkar, þegar ungur, ómótaður einstaklingur er settur í fangelsi fyrir það eitt að reyna að hafa þak yfir höfuðið,'' sagði Rueben Taylor, frá samtökunum þegar hann heyrði af dómnum. ,,Raunverulegi glæpurinn eru þær 930 þúsund íbúðir sem standa auðar víðsvegar um Bretland, ekki fólkið sem reynir að koma þeim aftur í notkun.''




Fleiri fréttir

Sjá meira


×