Innlent

Foreldrar á þingi vilja lækka skatta á taubleium

Þingmennirnir Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (V), Birkir Jón Jónsson (B) og Lilja Mósesdóttir lögðu í dag fram frumvarp um breytingar á virðisaukaskattsþrepi á taubleium en núna þarf að greiða 25,5 prósent skatt af bleiunum. Þingmennirnir leggja til að skatturinn verði lækkaður niður í 7 prósent. Í greinagerð frá þingmönnunum segir að lækkun virðisaukaskatts á umhverfisvænum vörum sé jákvæð og til þess fallin að margir sem ella fjárfesta ekki í slíkum vörum kjósa að kaupa þær.

Ein vara sem er líklegt að skattbreytingar muni auka sölu á eru margnota taubleiur að mati þingmannanna. Svo segir í frumvarpinu að bleiukostnaður sé þungur útgjaldaliður hjá barnafjölskyldum en þess má geta að Birki Jón Jónsson eignaðist tvíbura á dögunum og Guðfríður Lilja á tvö lítil börn fyrir.

Flutningsmenn frumvarpsins leggja til að fjölskyldur með ungabörn, fái notið skattbreytinga af þessu tagi sem mundi koma sér vel fyrir margar fjölskyldur auk þess að hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Samkvæmt upplýsingum á vef Umhverfisstofnunar notar hvert barn um 5–6 þúsund einnota bleiur á sínum fyrstu æviárum. Það gera um tvö tonn af sorpi og niðurbrotstími þessara tveggja tonna er um fimm hundruð ár í náttúrunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×