Enski boltinn

Suarez tryggði Liverpool stig á Ljósvangi | Versta byrjun í 101 ár

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Suarez skoraði mark Liverpool í leiknum.
Suarez skoraði mark Liverpool í leiknum. Nordicphotos/Getty
Sunderland og Liverpool skildu jöfn 1-1 í viðureign liðanna á Ljósvangi í Sunderland í síðdegisleiknum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Þetta er í fyrsta sinn í 101 ár sem Liverpool vinnur ekki leik í fyrstu fjórum umferðum deildarinnar.

Leikmenn liðanna hylltu stuðningsmennina 96 sem létu lífið í Hillsborough slysinu árið 1989 fyrir leik. Leikmenn Liverpool klæddust meðal annars treyju með númerinu 96 aftan á fyrir leik.

Skotinn Steven Fletcher kom heimamönnum yfir með marki af stuttu færi á 29. mínútu. Framherjinn fer vel af stað hjá Sunderland en hann skoraði tvívegis í 2-2 jafnteflinu gegn Swansea í síðustu umferð.

Liverpool var sterkari aðilinn í leiknum en gekk illa að finna leiðina í markið. Það tókst þó á 71. mínútu þegar Luis Suarez jafnaði metin eftir góðan undirbúning Raheem Sterling.

Gestunum tókst ekki að tryggja sér sigur þrátt fyrir að vera betri aðilinn og bíða enn eftir sínum fyrsta deildarsigri undir stjórn Brendan Rodgers.

Liverpool hefur tvö stig að loknum fjórum umferðum og situr í 17. sæti deildarinnar. Sunderland situr í 14. sæti með þrjú stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×