Innlent

Í haldi vegna heimilisofbeldis og annarra brota

BBI skrifar
Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um framlengingu gæsluvarðhalds yfir manni sem m.a. er grunaður um gróft ofbeldi gegn sambýliskonu sinni, þjófnað og fíkniefnabrot.

Í rökstuðningi lögreglustjóra eru afbrot mannsins talin upp. Hann er meðal annars sakaður um að hafa ráðist á öryggisvörð Hagkaupa með kústskafti. Þá var hann gripinn á Lebowski bar við Laugarveg með veiðihníf með 14 cm löngu blaði innanklæða.

Hann er einnig ákærður fyrir að slá unnustu sína með krepptum hnefa, kasta henni utan í vegg og slá höfði hennar ítrekað í vegg þar til hún missti meðvitund. Við annað tilefni hrinti hann henni í gólfið, sparkaði ítrekað í hana, reif gat á gallabuxur hennar og rak fingur upp leggöng hennar.

Loks hefur ríkissaksóknari til meðferðar fimm mál þar sem ákærði er grunaður um brot gegn valdstjórninni.

Að þessu athuguðu taldi Hæstiréttur allar líkur standa til þess að maðurinn myndi halda áfram brotum ef hann fengi að ganga laus. Því var hann vistaður í gæsluvarðhald þar til dómur gengur í máli hans eða í síðasta lagi 9. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×