Innlent

Mikið tjón á Norðausturlandi - leit heldur áfram í dag

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Ljóst að tjónið er mikið.
Ljóst að tjónið er mikið.
Almannarvarnarástandi var aflétt á Norðausturlandi seint í gærkvöldi. Leit stendur þó enn yfir að fé.

Ríkislögreglustjóri aflétti í gærkvöldi neyðarstigi almannavarna sem lýst hafði verið yfir í umdæmi lögreglustjórans á Húsavík á þriðjudaginn vegna björgunaraðgerða sem farið var í eftir veðuráhlaupið á norðanverðu landinu. Ljóst er að mikið tjón hefur orðið á svæðinu og enn stendur yfir leit að fé.

„Núna tekur bara við leit og björgun bænda sjálfra og annarra manna og björgunarsveita sem að náttúrulega halda áfram þessari vinnu og klára hana," segir Hreiðar Hreiðarsson varðstjóri hjá lögreglunni á Húsavík. Hann segir ljóst að leitað verði áfram einhverjar daga í viðbót.

„Leit heldur áfram í dag og næstu daga að öllu því fé sem að eftir er. Það er eitthvað af fé á fjöllum en aðstæður náttúrulega orðnar aðrar en þegar almannavarnarástandinu var lýst yfir. Það tekur einhverja daga að klára þessa yfirferð alla," segir Hreiðar. Hann segir erfitt að segja til um hversu margar kindur séu enn á fjöllum. „Það voru einhverjar tölur uppi um það í gær að á Þeistareykjasvæði væri hugsanlega svona fjórðungur eftir af því sem að menn töldu að hefði verið setta á fjall í sumar."

Hann segir að síðustu þrjá daga hafi verið leitað í súld og þoku og að leitin hafi verið barningur. Hann segir fjölmarga hafa komið að leitinni og mikið mætt á bændum.

„Það eru margir orðnir þreyttir og hafa gengið held ég algjörlega fram af sér margir hverjir. Það er sama menn halda áfram og nudda við þetta og hafa til þess náttúrulega hjálp annarra til þess að halda verkinu áfram," segir Hreiðar Hreiðarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×