Innlent

Ríkisstjórnin mun bæta tjón fjárbænda

BBI skrifar
Mynd/Hallgrímur Óli hjá Landsbjörg
Ríkisstjórnin mun styðja fjárhagslega við bændur á Norðurlandi sem hafa orðið fyrir tjóni vegna veðurfarsins á landssvæðinu í síðustu viku. Þetta kom fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvegaráðherra, við fyrirspurn Kristjáns L. Möller, formanns atvinnuveganefndar, á þinginu í dag.

Ríkisstjórnin studdi vel við fórnarlömb náttúruhamfaranna á Suðurlandi þegar Eyjafjallajökull og Grímsvötn gusu. Eftir þær stuðningsaðgerðir liggja nú 25 - 30 milljónir króna í Bjargráðasjóði bænda. Þeim fjármunum verður öllum varið í stuðning við bændur á Norðurlandi vegna fárviðrisins í síðustu viku. Ef að upphæðin hrekkur ekki til fyrir öllu tjóninu þá mun ríkisstjórnin leggja meira fé í stuðninginn.

Kristján L. Möller tók málið upp á þingi í dag. Þar sagði hann að fárviðrið hefði verð alvarlegt áfall fyrir fjárbændur. Enn er mikið fé á fjalli og óljóst hvert tjón hlýst af hamförunum þegar upp verður staðið. Staðan er grafalvarleg, en auk þessara áfalla er heyforði bænda slakur eftir þurrka í sumar.

Auk fjárhagslegs tjóns hafa bændur orðið fyrir félagslegum áföllum vegna hamfaranna svoleiðis að mörgum eru að fallast hendur og einhverjir velta fyrir sér að hætta búskap. „Það má aldrei verða," sagði Kristján á þingi og taldi mikilvægt að stjórnvöld sendu skýr skilaboð um að hjálp myndi berast.

Því spurði hann hvort ríkisstjórnin myndi standa að baki þeirra sem orðið hefðu fyrir áföllum. Steingrímur svaraði að þegar hefði verið samþykkt í ríkisstjórn að veita þá aðstoð sem mögulegt er að veita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×