Enski boltinn

Agger vill vera áfram hjá Liverpool

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Daniel Agger
Daniel Agger Nordicphotos/Getty
Daniel Agger, leikmaður Liverpool, hefur tjáð sig um áhuga Manchester City á sér. Hann segist þó umfram allt vilja spila fyrir Liverpool.

Englandsmeistarar Manchester City hafa sýnt Dananum mikinn áhuga og buðu á dögunum 20 milljónir punda í miðvörðinn. Liverpool hafnaði hins vegar tilboðinu og er talið að félagið vilji 27 milljónir punda fyrir Agger.

„Ég veit af áhuga Manchester City en ég veit ekki hver viðbrögð Liverpool eru. Þetta kemur mér ekki úr jafnvægi. Félagið verður að ákveða hvað það vill gera. Ég hef ekki heyrt neitt frá þeim. Ég vil frekar vera áfram en ákvörðunin er ekki í mínum höndum sem stendur," sagði Agger á blaðamannafundi í Danmörku í gær.

Danir mæta Slóvökum í æfingaleik á morgun og var greinilegt að Agger klæðist rauðri treyju Liverpool með stolti.

„Ég get ekki ímyndað mér hvernig væri að spila fyrir nokkurt annað félag á Englandi. Maður veit samt aldrei ef félagið telur best að selja mig," sagði Agger.

Liverpool mætir WBA í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×