Innlent

Jón Gnarr: Stærsta vandamál borgarinnar eru bílar

Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, vill breyta viðhorfum gagnvart bílamenningu.
Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, vill breyta viðhorfum gagnvart bílamenningu.
„Ég tel að stærsta vandamál Reykjavíkur og þá sérstaklega miðbæjarins, sé bílaumferð," sagði Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur í viðtali við Sigurjón M. Egilsson í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Sigurjón spurði Jón úti í umdeildar lokanir á Laugaveginum og sagðist Jón þá ekki trúa því að bílabann á hluta Laugavegarins hefði áhrif á verslunina. „Fólk í bílum er ekki að versla," sagði Jón og bætti við að það væru stærri breytingar sem ógnuðu verslun á Laugaveginum. Tók hann sem dæmi dramatískar breytingar eins og byggingu Kringlunnar á níunda áratugnum.

„Ég held að lokun umferðar á Laugaveginum hafi verið til góða og ég hef fengi mjög jákvæð viðbrögð út af lokuninni," sagði Jón sem telur bílaborgina Reykjavík þurfa að leita jafnvægis til móts við hjólamenningu.

Jón segir bíla í höfuðborginni vera helsta slysavald borgarinnar, „og þarna verður að verða breytingar á viðhorfi," sagði Jón. Aðspurður útí almenningssamgöngur svarar Jón því til að það þurfi að efla þær og hann vill meina að borgin hafi lagt sín lóð á vogarskálarnar.

„Reykjavík er bílavæn borg, og það er fínt, ég hef gaman af bílum, en hún er óvanalega bílavæn. Og það vantar ákveðið jafnvægi," sagði Jón og benti á að hér væru lægstu bílastæðagjöld í heimi, sem borgaryfirvöld hækkuðu raunar á dögunum, og bætir við að aðrar borgir setji mun harkalegri hömlur á bíla heldur en Reykjavík.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×