Innlent

Gagnaverið í Keflavík meðal umhverfisvænustu á heimsmælikvarða

BBI skrifar
Gagnaver Verne Global.
Gagnaver Verne Global.
Gagnaver Verne Global sem stendur að Ásbrú í Reykjanesbæ var valið eitt af 100 bestu sjálfbærnilausnum til framtíðar á umhverfisráðstefnunni Sustania Ríó +20 sem fram fór í síðasta mánuði.

Gagnaverið er að öllu leyti knúið endurnýjanlegum orkugjöfum frá jarðvarma- og vatnsfallsvirkjunum sem losa engan koltvísýring. Það gerir fyrirtækinu kleift að draga úr kostnaði vegna koltvísýringslosunar og byggja upp jákvæðari ímynd. Gagnaverið er tengt Evrópu og Bandaríkjunum með háhraðatengingum.

Gagnaverið var vígt í febrúar fyrr á þessu ári. Þá voru fjögur ár liðin síðan fyrstu skref voru stigin með kaupum á byggingum á Keflavíkurflugvelli. Marviss stækkun var í áformum Verne Global og árið 2017 á gagnaverið að vera fullbúið með fjórum byggingum. Þá er reiknað með að 100 störf hafi skapast hjá fyrirtækinu.

Listinn sem um ræðir er samansettur af einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum sem hafa skarað fram úr í sjálfbærri þróun, t.d. með notkun endurnýjanlegra orkugjafa.

Í nefndinni sem valdi á listan sátu m.a. Arnold Schwarzenegger og Gro Harlem Brundtland, fyrrum forsætisráðherra Noregs.

Frá þessu er greint í blaðinu Íslenskum iðnaði í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×