Fótbolti

Benitez, Guardiola og Harry Redknapp á opinberum óskalista Rússa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hinn 65 ára Redknapp hefur stýrt fimm enskum félögum en aldrei þjálfað landslið né utan Englands.
Hinn 65 ára Redknapp hefur stýrt fimm enskum félögum en aldrei þjálfað landslið né utan Englands. Nordicphotos/Getty
Fabio Capello, Pep Guardiola og Harry Redknapp eru á meðal þrettán einstaklinga sem skipa óskalista rússneska knattspyrnusambandsins yfir mögulega landsliðsþjálfara.

Rússum tókst ekki að komast upp úr riðli sínum á Evrópumótinu í knattspyrnu í sumar sem þótti ekki viðunandi árangur. Hollendingurinn Dick Advocaat var því látinn taka poka sinn.

Auk þeirra þriggja sem áður voru nefndir eru Rafael Benitez, Marcello Lippi og Argentínumaðurinn Marcelo Bielsa meðal þekktari nafna á óskalistanum. Engu máli virðist skipta að Bielsa sé í starfi hjá Athletico Bilbao.

„Knattspyrnusamband Rússlands lýsir því yfir að það hyggst ræða við þessa sérfræðinga um að einn þeirra taki við starfi landsliðsþjálfara," segir í stuttri yfirlýsingu á heimasíðu knattspyrnusambandisins.

Phil Smith, umboðsmaður Harry Redknapp, hefur sagt Redknapp tilbúinn til viðræðna um starfið. Redknapp var sem kunnugt er sagt upp störfum hjá Tottenham Hotspur í upphafi sumars. Hann hafði áður þótt líklegur arftaki Fabio Capello sem landsliðsþjálfari Englands en Roy Hodgson varð fyrir valinu.

Meðal heimamanna sem skipa listann eru Valery Gazzayev, Anatoly Byshovets og Yuri Semin sem hafa áður þjálfað landsliðið en verið látnir taka pokann sinn vegna óviðundandi árangurs.

Valery Nepomnyashchy, sem stýrði Kamerún í átta liða úrslit á heimsmeistaramótinu á Ítalíu árið 1990 og er á óskalistanum, sagði þá leið sem rússneska knattspyrnusambandið hefur kosið að fara í leit sinni að landsliðsþjálfara skrípaleik.

„Er nafn mitt á listanum? Þá hlýtur þetta að vera frábær brandari," er haft eftir Nepomnyashchy í rússneskum fjölmiðlum.

Fjölmiðlar þar í landi telja Capello og Guardiola efsta á óskalista sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×