Íslenski boltinn

Umfjöllun og einkunnir: ÍBV - Fram 3-2

Eyjamenn unnu frábæran sigur, 3-2, gegn Fram í Pepsi-deild karla í knattspyrnu en leikurinn fór fram á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum.

Eyjamenn byrjuðu leikinn betur og réðu ferðinni frá upphafsmínútunni. Christian Steen Olsen, leikmaður ÍBV, skoraði fyrsta mark leiksins þegar tæplega hálftími var liðinn af leiknum en hann slapp einn í gegnum um vörn Framara og afgreiddi boltann snyrtilega í netið. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleiknum og staðan 1-0 þegar menn gengu til búningsherbergja.

Christian Steen Olsen var síðan aftur á ferðinni þegar hann skoraði annað mark Eyjamanna þegar hálftími var eftir af leiknum og allt leit út fyrir að heimamenn myndu vinna leikinn örugglega.

Kristinn Ingi Halldórsson, leikmaður Fram, var aftur á móti ekki á sama máli en hann minnkaði muninn í 2-1 tveim mínútum síðar. Um tíu mínútum fyrir leikslok fengu Eyjamenn nokkuð umdeilda vítaspyrnu þegar Ásgeir Gunnar Ágeirsson, leikmaður Fram, átti að hafa togað í Andra Ólafsson innan vítateigs.

Þórarinn Ingi Valdimarsson fór á punktinn og skoraði þriðja mark ÍBV í leiknum.

Framarar neituðu að gefast upp og náðu að skora sitt annað mark í leiknum nokkrum mínútum síðar þegar Steven Lennon braust í gegnum alla vörn Eyjamanna og vippaði boltanum yfir Abel í markinu.

Lengra komust Framarar ekki og því unnu Eyjamenn fimmta leikinn í röð í deildinni og eru komnir á fínt skrið þar. Eyjamenn eru í 4. sæti með 17 stig en Framarar sem fyrr í 10. sætinu með 9 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×