Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - FH - 3-1

Stefán Árni Pálsson á Hlíðarenda skrifar
Valsmenn komu heldur betur á óvart og unnu FH, 3-1, á Vodafone-vellinum í Pepsi-deild karla í kvöld. FH-ingar komust yfir í upphafi leiksins en Valsmenn svöruðu með þremur mörkum.

Leikurinn hófst nokkuð rólega og liðin voru lengi í gang. Þegar leið á fyrri hálfleikinn náðu gestirnir ágætis tökum á leiknum og komust fljótlega yfir með fínu marki frá Birni Daníel Sverrissyni, en hann skoraði með viðstöðulausu skoti eftir hornspyrnu frá Viktori Erni Guðmundssyni.

FH-ingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og hefðu auðveldlega getað skorað fleiri mörk en það voru samt sem áður Valsarar sem jöfnuðu metin rétt fyrir lok fyrri hálfleiksins þegar Atli Sveinn Þórarinsson skallaði boltann í netið.

Jöfnunarmark Vals snéri leiknum gjörsamlega við og Valsmenn mættu grimmi til leiks út í síðari hálfleikinn. Markið virtist slá FH-inga útaf laginu og Valsmenn tóku öll völd á vellinum. Rúnar Már Sigurjónsson skoraði annað mark Valsmanna þegar nokkrar mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum en markið var nokkuð einkennilegt.

Eftir mörg mistök FH-inga inn í vítateig þá endaði boltinn hjá Rúnari sem mokaði boltanum yfir línuna. Þegar um hálftími var eftir af leiknum skoraði Rúnar annað mark sitt úr leiknum þegar hann vippaði boltanum í netið úr vítaspyrnu.

Strákurinn sýndi mikið hugrekki gegn landsliðmarkverði okkar Íslendinga og markið glæsilegt. Leiknum lauk því með 3-1 sigri Valsmanna sem fikra sig upp töfluna og eru komnir með 15 stig í fimmta sætið. FH-ingar eru sem fyrr í öðru sæti.

Það sem einkenndi leik Valsmanna í kvöld var gríðarlega barátta og menn voru greinilega tilbúnir að deyja fyrir klúbbinn. Valsmenn renndu sér í hverja tæklingu á fætur annarri og fá mikið hrós fyrir. FH-ingar virkuðu þreyttir og oft vantaði uppá gæði í úrslitasendingar leikmanna.





Rúnar Már: Ætlum okkur ekki að vera í einhverju miðjumoði

„Þetta var gríðarlega sætur sigur sem mikil orka fór í," sagði Rúnar Már Sigurjónsson, leikmaður Vals, eftir sigurinn

„Þeir eru með hörkulið sem er erfitt að ráða við. Við þurftum að vera nálægt þeim, sérstaklega á miðjunni þar sem þeir eru með öfluga menn."

„Þetta var taktískur sigur hjá okkur í kvöld, við vorum komnir fullaftarlega undir lokin en þetta hafðist."

„Við ætlum okkur ekki að vera í einhverju miðjumoði í sumar, þetta lið er of gott eins og við sýndum í dag."

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu við Rúnar hér að ofan.

Heimir: Verðum að vera sterkari í föstum leikatriðum

„Mér fannst við vera sjálfum okkur verstir í kvöld," sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, eftir tapið í kvöld.

„Við komumst yfir í upphafi leiksins og vorum í fínni stöðu en síðan missa strákarnir einbeitingu í örlitla stund á 44. mínútu og þá kom jöfnunarmarkið sem kostaði okkur í raun þennan leik."

„Síðan í seinni hálfleiknum fáum við á okkur mark eftir hornspyrnu og lið eins og FH má ekki bjóða uppá svona einbeitingaleysi."

„Eftir að Valur komst í 2-1 þá kláruðu þeir bara leikinn vel og voru mun betri aðilinn."

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu við Heimi með því að ýta hér.



Kristján Guðmundsson: Ætluðum að snúa við genginu í kvöld

„Við erum mjög ánægðir og ekki síður fegnir að hafa loksins sigrað,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Vals, eftir leikinn.

„Flest okkar stig hafa komið á heimavelli í sumar og við settum leikinn þannig upp í dag að það væri komin tími til að koma til baka.“

„Það var mjög mikilvægt að jafna leikinn rétt fyrir hálfleikinn og þar með gátum við talað leikmennina inná það að hafa trú á verkefninu.“

„Varnarlínan spila mjög vel í kvöld og við ræddum um að bæta miðjuspilið í hálfleiknum og það gekk eftir, ég er gríðarlega ánægður með liðið.“

Hægt er að sjá myndband af viðtalinu við Kristján með því að ýta hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×