Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fylkir - Grindavík 2-1

Stefán Hirst Friðriksson á Árbæjarvelli skrifar
Mynd / Vilhelm
Ingimundur Níels Óskarsson skoraði tvívegis í síðari hálfleik og tryggði Fylki 2-1 sigur á vængbrotnu liði Grindavíkur í Árbænum.

Leikurinn fór rólega af stað í rjómablíðu í Árbænum og tókst hvorugu liðinu að skapa sér neitt í upphafi leiks.

Það voru þó Grindvíkingar sem komust yfir á 17. mínútu leiksins. Þar var að verki Daníel Leó Grétarsson, sautján ára kjúklingur Grindvíkinga í sínum fyrsta byrjunarliðsleik meistaraflokks félagsins.

Næstu tuttugu mínútur eða svo voru mjög líflegar en bæði lið fengu virkilega hættuleg tækifæri til þess að skora í mjög opnum leik.

Hvorugu liðinu tókst það þó og staðan því 0-1, Grindvíkingum í vil þega flautað var til hálfleiks.

Fylkismenn byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og tókst þeim að jafna metin á 54. mínútu. Þá átti Ingimundur Níels Óskarsson gott skot fyrir utan vítateig sem hafnaði neðst í markhorninu.

Það var svo á 85.mínútu sem heimamönnum tókst að komast yfir. Daníel Leó sýndi þá reynsluleysi sitt með því að renna sér háskalega aftan í Tómas Joð Þorsteinsson innan vítateigs og dæmdi dómari leiksins umsvifalaust vítaspyrnu.

Ingimundur Níels fór á punktinn og sýndi fádæma öryggi þegar hann sendi Óskar í vitlaust horn. Staðan því orðin 2-1 heimamönnum í vil og stutt eftir af leiknum.

Gestunum í Grindavík tókst ekki að jafna metin og 2-1 sigur heimamanna því staðreynd.

Staða Grindvíkinga er slæm en þeir eru í neðsta sæti deildarinnar eftir fyrri umferðina ásamt því að leikmenn liðsins virðast eiga í vandræðum með að halda sér heilum.





Ásmundur: Gríðarlega sterkt að koma til baka

„Ég er gríðarlega ánægður með lokaniðurstöðuna. Þetta var torsóttur sigur en mjög sætur. Við vorum sérstaklega slakir í fyrri hálfleik en ég er mjög stoltur af strákunum. Það er gríðarlega sterkt að koma til baka og setja tvö mörk á þéttan varnarmúr anstæðinganna," sagði Ásmundur.

„Það er búið að vera fínn gangur í þessu hjá okkur að undanförnu. Við erum mjög bjartsýnir á seinni umferðina. Við stefnum að sjálfsögðu á að færa okkur nær efri hlutanum en neðri," sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis í leikslok.

Guðjón: Mjög svekktur

„Við hefðum átt að nýta sénsana okkar betur í leiknum. Ég er mjög svekktur því að við fengum marga sénsa til þess að klára þennan leik," sagði Guðjón.

Við hefðum átt að gera betur og klára þetta. Svo kemur vítaspyrnan í andlitið á okkur undir lok leiks og hún klárar þetta," bætti Guðjón við.

Grindavík hefur ekki gengið vel það sem af er Íslandsmótinu en Guðjón sagðist hafa trú á uppgangi sinna manna.

„Að sjálfsögðu hef ég trú á þessu. Það er augljóst að við stefnum á að gera betur í síðari umferðinni. Við erum búnir að lenda í miklum skakkaföllum, menn eru að meiðast og er það að há okkur," sagði Guðjón Þórðarsson að lokum.



Ingimundur: Ættum að vera með fleiri stig

„Mér fannst við vera frekar slakir í fyrri hálfleiknum. Við ræddum þetta í hálfleik og okkur tókst að ná í stigin þrjú í síðari hálfleiknum," sagði Ingimundur.

„Við erum bjartsýnir fyrir síðari umferðina. Okkur finnst að við ættum að vera með fleiri stig en raun ber vitni og við stefnum að sjálfsögðu ofar í töflunni," sagði Ingimundur Níels Óskarsson í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×