Íslenski boltinn

Gary Martin á leið til KR

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd / Guðmundur Bjarki
Knattspyrnukappinn Gary Martin hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Pepsi-deildarlið Skagamanna.

Martin hefur verið orðaður við Vesturbæjarliðið í töluverðan tíma en þó var reiknað með því að hann spilaði út tímabilið hjá ÍA. Hann sagði hins vegar við Hjört Júlíus Hjartarson, íþróttafréttamann 365 miðla, á Skipaskaga í kvöld að hann væri á leið frá félaginu.

Þórður Þórðarson, þjálfari Skagamanna, neitaði ekki fréttunum þegar hann var spurður út í þær.

„Það er ekkert klárt fyrr en það er klárt. Því miður stefnir í það að hann sé að fara frá okkur," sagði Þórður og ljóst að mikið þarf að gerast til þess Martin fari ekki í Vesturbæinn.

Talið er líklegt að ÍA fái leikmenn frá KR í skiptum fyrir Martin en Þórður vildi ekki tjá sig um það mál. Einn þeirra sem nefndur er til sögunnar í því samhengi er Björn Jónsson sem býr á Akranesi og keyrir daglega til æfinga. Heimildir fréttastofu herma að Björn sé orðinn nokkuð þreyttur á daglegum akstri ofan af Skipaskaga.

KR-ingar eiga í framherjavandræðum þessa dagana en Kjartan Henry Finnbogason glímir bæði við hnémeiðsli auk þess sem hann er tábrotinn. Hann ferðaðist ekki með KR-liðinu til Finnlands en liðið mætir HJK Helsinki á morgun í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×