Íslenski boltinn

Steven Lennon ósáttur með vinnubrögð forráðamanna Fram

Steven Lennon er ósáttur við vinnubrögð forráðamanna Fram.
Steven Lennon er ósáttur við vinnubrögð forráðamanna Fram. Anton
Skoski framherjinn, Steven Lennon, leikmaður Fram segist ósáttur með að hafa ekki fengið að vita af áhuga KR á að fá sig til liðs við félagið og vill burt úr Safamýrinni. Þetta kom fram í útvarpsþættinum Boltanum á X-inu í morgun þar sem hann var í viðtali hjá Hirti Hjartarsyni, umsjónarmanni þáttarins.

"Ég komst að því í gegnum fjölmiðla í gær að KR hafði gert tilboð í mig í síðustu viku. Ég hringdi í Gumma [Guðmund Torfason, formann meistaraflokksráðs hjá Fram] sem staðfesti að félagið hefði hafnað tilboði KR. Ég er mjög ósáttur að hafa ekki fengið að vita af áhuga KR strax. Ég hafði frá þeim loforð um að ég yrði upplýstur um það þegar og ef tilboð frá öðrum liðum bærist."

Lennon segist hafa mikinn áhuga að ganga í raðir KR. Hann vonaðist til að félögin næðu saman, annaðhvort um kaupverð eða þá um lánssamning.

"Ég vil ekki sýna Todda [Þorvaldi Örlygssyni, þjálfara Fram] eða Fram neina óvirðingu en menn verða gera sér grein fyrir því að ég er atvinnumaður í knattspyrnu sem vill spila með eins góðu liði og ég get. Ég vil ekki styggja neinn með því að ýta of fast á það að komast frá Fram til KR en þegar lið eins KR kemur og vill fá þig í sínar raðir er svarið einfalt", sagði Steven Lennon.

"En málið er nú í höndum forráðamanna Fram. Ég mun láta þá vita af áhuga mínum að ganga til liðs við KR og þar með taka skref upp á við á mínum ferli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×