Fótbolti

Hátekjuskattur í Frakklandi gæti farið illa með Zlatan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Zlatan í París í dag.
Zlatan í París í dag. Nordicphotos/Getty
Svo gæti farið að stærstur hluti launa Zlatan Ibrahimovic, nýjustu stjörnu frönsku knattspyrnunnar, renni í ríkissjóð Frakka. Lög þar sem 75 prósenta hátekjuskattur verður lagður á allar árstekjur umfram eina milljón evra taka senn gildi.

Zlatan gekk sem kunnugt er frá þriggja ára samningi við franska félagið Paris Saint-Germain í dag. Kaupverðið og kjör Zlatans hjá franska liðinu hafa ekki verið gerð opinber. Talið er að árslaun hans hjá félaginu séu í kringum 14 milljónir evra eða sem nemur um 2,2 milljörðum íslenskra króna að því er Reuters-fréttastofan greinir frá.

Ef af nýju skattalögunum verður má Zlatan reikna með því að tekinn verði 75 prósenta tekjuskattur af 13 milljónum evra eða sem nemur 9,75 milljónum evra. Það þýðir um einn og hálfan milljarð króna í ríkissjóð Frakklands.

Najat Vallaud-Belkacem, talsmaður frönsku ríkisstjórnarinnar, lét hafa eftir sér í dag að engin ástæða væri fyrir því að knattspyrnumenn ættu að vera undanskildir hátekjuskattinum.

„Svo ég tali frá eigin hjarta held ég að margir séu hneykslaðir á laununum sem viðkomandi leikmaður fær hjá félaginu," er haft eftir Vallaud-Belkacem. Hún sagði ennfremur tíma til kominn að tækla vandamálið sem hún segir ofurlaun knattspyrnumanna í Evrópu vera. Á sama tíma berjist flestar ríkisstjórnir í bökkum vegna fjárhagsvandræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×