Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Keflavík - Selfoss 2-2 | Jón Daði jafnaði í lokin

Einar Njálsson á Nettóvellinum skrifar
Jón Daði Böðvarsson
Jón Daði Böðvarsson Mynd/Daníel
Jón Daði Böðvarsson tryggði Selfyssingum 2-2 jafntefli í Keflavík með því að skora jöfnunarmarkið á lokamínútu leiksins en heimamenn í Keflavík voru 2-0 yfir þegar aðeins sjö mínútur voru eftir af leiknum.Selfyssingar voru búnir að tapa þremur leikjum í röð en náðu nú í sín fyrstu stig síðan í maí.

Leikurinn byrjaði nokkuð fjörlega og bæði lið sóttu hratt. Arnór Ingvi Traustason átti ágætis skot í slá snemma leiks og Guðmundur Steinarsson átti hættulega skot úr aukaspyrnu rétt yfir markið.

Heimamenn tóku völdin um miðbik fyrri hálfleiks og uppskáru mark þegar Jóhann Birnir Guðmundsson kom Keflavík í 1-0 á 38. mínútu með góðu skoti út teignum og heimamenn með forystuna í hálfleik. Arnór Ingvi Traustason bætti síðan við öðru marki strax á upphafsmínútu seinni hálfleiks með skoti úr miðjum teignum þar sem hann stóð einn og óvaldaður eftir sofandi hátt í vörn Selfyssinga.

Logi Ólafsson þjálfari Selfyssinga gerði þó fljótlega breytingar eftir seinna mark heimamanna og við það breyttist leikur Selfyssinga. Þeir voru mun ákveðnari og settu aukinn sóknarþunga á heimamenn. Eftir nokkur hálffæri gestanna og góðar markvörslur frá Ómari Jóhannssyni í marki Keflavíkur minnkaði Babacar Sarr muninn sex mínútum fyrir leikslok með skalla eftir hornspyrnu Ólafs Karls Finsen. Mikilvægt jöfnunarmark Jóns Daða kom síðan á 90. mínútu þegar boltinn barst inn í teig eftir enn eina hornspyrnu Selfyssinga og Jón Daði var fyrstu að átta sig og potaði boltanum inn.

Þetta voru fyrstu stigin hjá lærisveinum Loga Ólafssonar síðan í 3-3 jafntefli á móti Grindavík 24. maí síðastliðinn. Bæði lið eru stutt frá fallsæti og er hvert stig þeim mikilvægt. Keflvíkingar geta nagað sig í handarbakið vegna tapaðra stiga á meðan Selfyssingar ganga sáttir frá borði miðað við stöðuna þegar 7 mínútur voru til leiksloka.

Logi: Góð teikn á lofti í okkar leik
Mynd/Daníel
„Þetta endaði ágætlega. Við vorum klaufar í fyrri hálfleik að gefa Jóhanni Birni það pláss sem hann vinnur best í, hann er stórhættulegur skotmaður" sagði Logi Ólafsson þjálfari Selfoss um mark Jóhanns Birnis sem var einkar laglegt. Keflavík skoraði annað mark sitt fljótlega í seinni hálfleik:

„Við vorum sofandi í upphafi seinni hálfleiks en eftir það var bara eitt sem kom til greina og það var að jafna leikinn og það tókst. Vissulega hefðum við viljað vinna þennan leik en þetta er þó vonandi viðsnúningur í okkar leik því við höfum verið að tapa leikjum og stigum í uppbótartíma en náum í stig hér í dag og okkur tekst að loka á föst leikatriði gegn okkur. Það er góð teikn á lofti í okkar leik" sagði Logi Ólafsson nokkuð sáttur með sína menn.

Jón Daði Böðvarsson átti mjög góðan leik í dag og var Logi sammála um það: „Þegar Jón er í þessum gírnum er hann stórhættulegur. Það sem gerði þó útslagið var samtaka mátturinn í liðinu, við breyttum um taktík og hækkum liðið og gerum þeim erfitt fyrir í föstum leikatriðum, það hjálpaði okkur töluvert en fyrst og síðast var það að menn vinna saman sem ein heild"

Jóhann Birnir: Í besta forminu síðan að ég var 17 ára
Jóhann Birnir Guðmundsson, leikmaður Keflavíkur, var ekki eins sáttur enda misstu Keflvíkingar niður 2-0 forystu á lokamínútum leiksins.

„Þetta voru hrikalega vonbrigði en ég held að þetta hafi ara verið sanngjarnt, mér fannst þeir miklu betri í seinni hálfleik og áttu skilið að jafna," sagði Jóhann.

Keflavík virtist vera með leikinn í höndum sér þegar þeir skora seinna markið: „Ég veit ekki hvað gerist síðustu 30 mínúturnar. Menn fara bara að líta á klukkuna, það gerist stundum. Selfyssingar voru bara grimmari og stóðu sig vel, þetta er óafsakanlegt af okkar hálfu".

Jóhann Birnir átti góðan leik í dag og gerði varnarmönnum Selfoss erfitt fyrir. „Ég er í mínu besta formi síðan ég var 17 ára," sagði Jóhann Birnir í gamni þegar blaðamaður spurði um formið „Nei , þetta gengur ágætlega, en leiðinlegt að hafa ekki unnið í dag" bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×