Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan - Fram | 4-2

Stefán Árni Pálsson á Samsung-vellinum skrifar
Stjarnan vann í kvöld fínan sigur á Fram, 4-2, á Samsung-vellinum í Garðabæ en leikurinn var hluti af 9. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Garðar Jóhannsson fann markaskóna og gerði tvö mörk fyrir heimamenn.

Leikurinn hófst með miklum látum og heimamenn voru ekki lengi að komast á blað. Eftir rúmlega fimm mínútna leik skoraði Garðar Jóhannsson flott mark og setti tóninn. Garðar fékk flotta fyrirgjöf frá Herði Árnasyni og stýrði boltanum laglega í netið.

Framarar létu markið ekki slá sig útaf laginu og héldu áfram sínum leik. Það skilaði sér fljótlega og rúmlega tíu mínútum síðar jafnaði Sveinbjörn Jónasson leikinn fyrir gestina. Steven Lennon vippaði boltanum yfir á Sveinbjörn sem kláraði færið meistaralega, en færið var þröngt og sérstaklega vel að verki staðið.

Leikurinn róaðist heldur næstu mínútur og liðin nokkuð varkár. Það voru samt heimamenn sem skoruðu þriðja mark leiksins en það gerði Daninn Kennie Knak Chopart nokkrum mínútum fyrir lok hálfleiksins. Halldór Orri Björnsson gaf frábæra stoðsendingu á Kennie sem vippaði boltanum snyrtilega yfir Ögmund í mark Framara. Smá rangstöðulykt af markinu en engu að síður vel gert hjá Chopart. Staðan var 2-1 í hálfleik en leikurinn frábær skemmtun.

Framarar voru ekki lengi að jafna metinn en Steven Lennon skoraði annað mark Fram þegar aðeins fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum. Lennon nýtti sér skelfileg mistök hjá Halldóri Orra Björnssyni, leikmanni Stjörnunnar, en hann hreinlega leyfði Lennon að hrifsa af sér boltann og framherjinn lét ekki bjóða sér það tvisvar og afgreiddi knöttinn í netið.

Garðar Jóhannsson kom Stjörnunni aftur yfir þegar rúmlega hálftími var eftir af leiknum. Atli Jóhannsson tók fína hornspyrnu sem Garðar skallaði laglega í netið. Stjarnan gerði nánast útum leikinn nokkrum mínútum síðar þegar Ellert Hreinsson skoraði fjórða mark heimamanna og staðan orðin 4-2. Niðurstaðan því öruggur sigur heimamanna og liðið komið með 16 stig í Pepsi-deildinni. Fram er sem fyrr í næstneðsta sæti deildarinnar með 6 stig.

Bjarni Jóh: Við létum þá aldrei slá okkur útaf laginu„Ég er virkilega ánægður með þennan sigur og hvernig mínir menn léku í kvöld," sagði Bjarni Jóhannsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir sigurinn í kvöld.

„Við byrjuðum virkilega vel í kvöld og skorum snemma leiks. Liðið fær aftur á móti fljótlega mark á sig en ég er ánægður með hvernig strákarnir svöruðu mótlætinu."

„Við höfum verið í vandræðum með síðari hálfleikinn að undanförnu en það var ekki að sjá í kvöld og liðið hélt einbeitingu allan tímann."

„Framarar komu mér nokkuð mikið á óvart með leikskipulagi og mikilli áherslu á sóknarleik, en það virtist ekki slá mína menn útaf laginu og strákarnir stóðu vaktina vel."

Hægt er að sjá viðtalið við Bjarna hér að ofan.

Daníel Laxdal: Loksins spiluðum við vel í seinni hálfleik„Það var komin tími til að liðið finni sig almennilega á heimavelli,“ sagði Daníel Laxdal, leikmaður Stjörnunnar, eftir sigurinn í kvöld.

„Loksins náði liðið að spila almennilega seinni hálfleik. Við byrjum vel alveg frá upphafi leiksins og setjum strax mark. Framarar ná samt sem áður að jafna strax en mér fannst liðið hafa fín tök á leiknum.“

„Það kemur síðan smá kafli í síðari hálfleiknum sem við keyrum yfir Fram og kláraum þar með leikinn.“

„Það er alltaf markasúpa hér og gaman að skemmta áhorfendum. Við erum nokkuð sáttir með 16 stig og þriðja sætið á þessum tímapunkti í mótinu, en við viljum meira.“

Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni með því að ýta hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×