Íslenski boltinn

Guðjón vill nota bikarkeppnina til að koma Grindavík af stað í deildinni

Hjörtur Júlíus Hjartarson skrifar
Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson. Mynd/Daníel
Dregið var í átta liða úrslitum Borgunarbikarsins í knattspyrnu karla nú í hádeginu. Grindvíkingar, sem sitja í neðasta sæti úrvalsdeildarinnar, án sigurs mæta Víkingum í Fossvoginum. Víkingar voru annað af tveimur liðum í pottinum í dag sem leika í næstefstu deild. Það lá því beinast við að spyrja Guðjón hvort hann telji sína menn ekki hafa verið heppna með andstæðing í næstu umferð.

„Í sjálfu sér skiptir það engu máli hverjum við mætum í átta liða úrslitum. Við sáum hvernig Víkingar afgreiddu Fylki í gærkvöld og hvernig Þróttur sló Val út úr keppninni kvöldið áður. Bikarkeppnin er ólík deildarleikjum. Í bikarnum er það bara dagurinn, stundin, það augnablik sem ræður úrslitum." sagði Guðjón í samtali við Vísi.

Rétt eins og kollegi sinn hjá Víkingi, Ólafur Þórðarson á Guðjón að baki afar sigursælan feril í bikarkepninni. Guðjón hefur níu sinnum staðið uppi sem sigurvegari að loknum úrslitaleik í keppninni, fimm sinnum sem leikmaður og fjórum sinnum sem þjálfari.

Guðjón hefur jafnframt stýrt liðum sínum í átta liða úrslit bikarkeppninnar átta sinnum á síðustu níu tímabilum sínum sem þjálfari á Íslandi.

Guðjón efast engu að síður ekki um að framundan sé erfitt verkefni fyrir sína menn.

„Víkingar hafa á að skipa sterkum leikmannahópi. Þeir eru með góða blöndu af ungum og reyndar leikmönnum sem sýndu í gær að þeir eru til alls líklegir. Þetta verður því afar erfitt og krefjandi verkefni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×