Íslenski boltinn

Tryggvi: Var búinn að spá því að við mættum KR

Hjörtur Júlíus Hjartarson skrifar
Tryggvi Guðmundsson.
Tryggvi Guðmundsson. Mynd/Daníel
„Nei, KR var svo sannarlega ekki óskamótherjinn í þessari umferð. Ég var reyndar búinn að spá því að við þyrftum að fara í vesturbæinn í þessari umferð en sem betur fer fáum við KR-inga til Eyja. Það er töluvert betra", sagði Tryggvi Guðmundsson, leikmaður ÍBV að loknum bikardrættinum í hádeginu í dag.

Óhætt er að fullyrða að öll lið hafi viljað forðast það að mæta ÍBV úti í Eyjum enda einn erfiðasti útivöllur landsins. Það verður því ærið verkefnið sem bíður KR í átta liða úrslitunum.

KR fagnaði sigri í bikarkeppninni í fyrra en á leið sinni í úrslitaleikinn sló liðið meðal annars út, Stjörnuna, FH og Keflavík. Í ár hafa bæði ÍA og Breiðablik mátt lúta í gras fyrir KR-ingum á leið þeirra í átta liða úrsltin.

Þó Tryggvi hafi viljað forðast ríkjandi bikarmeistarar KR í átta liða úrslitunum var hann engu að síður spenntur fyrir leiknum.

„Það er alltaf gaman að taka þátt í stórum leikjum og það er þessi leikur svo sannarlega. Það er alltaf hart barist þegar þessi tvö lið eigast við. Reyndar höfum við Eyjamenn aðeins verið undir baráttu okkar við KR undanfarin ár. Vonandi náum við að laga sigurhlutfallið aðeins í komandi bikarleik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×