Enski boltinn

Mickey Thomas telur að Gylfi fari til Liverpool

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordic Photos / Getty
Mickey Thomas, fyrrum leikmaður Manchester United og nú knattspyrnusérfræðingur á BBC í Wales, telur að Gylfi Þór Sigurðsson muni velja að ganga til liðs við Liverpool frekar en Swansea.

„Það er engin spurning. Auðvitað velur hann Liverpool," segir Thomas í viðtali hjá BBC.

Thomas telur að Gylfi verði fyrst og fremst að hugsa um sinn eigin hag.

„Leikmaðurinn verður að velta fyrir sér framtíðinni hjá Swansea þar á meðal hver verði næsti knattstpyrnustjóri," segir Thomas og bendir á að Brendan Rodgers hafi átt stóran þátt í velgengni Gylfa.

Rodgers, sem er nýtekinn við stjórastöðunni hjá Liverpool, hefur lýst yfir áhuga á að fá Gylfa til Liverpool gangi Hafnfirðingurinn ekki frá samningi við Swansea.

Thomas telur að stuðningsmenn Swansea muni fyrirgefa Gylfa neiti hann að semja við liðið.

„Ég helt að þeir skilji það ef metnaðarfullur leikmaður velur að ganga til liðs við stærra félag. Swansea hefur engan knattspyrnustjóra í augnablikinu," sagði Thomas sem segir engan betri áfangastað en Liverpool.

Leiðrétting: Fyrr í dag kom fram á Vísi að Mickey Thomas, fyrrum leikmaður Liverpool, hefði haft þessi orð um Gylfa Þór. Um nafna hans frá Wales er hins vegar að ræða. Lesendur eru beðnir velvirðingar á þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×