Innlent

Hefur efasemdir um stöðu lífeyrissjóða á lánamarkaði

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Formaður viðskipta- og efnahagsnefndar segir það vekja efasemdir um stöðu lífeyrissjóðanna á neytendalánamarkaði að vera ekki tilbúnir til að koma til móts við fólk í skuldavanda. Ef þeir telji sig skorta lagaheimildir geti þeir leitað til þingsins.

Tæplega fjögur þúsund skuldarar hafa fengið lánað veð hjá vinum eða ættingjum til að kaupa sér húsnæði. Um helmingur þeirra er með yfir 110 prósenta veðsetningu en lífeyrissjóðirnir hafa ekki viljað fella niður skuldir þessa hóps samkvæmt 110 prósenta leiðinni þar sem þeir segja þeim ekki vera heimilt að fella niður innheimtanlegar kröfur.

„Við getum hjálpað þeim að greina mengið og finna hugsanlegar leiðir en það er alveg ljóst að þeir munu ekki koma að beinum greiðslum eða niðurfellingu á eignum," segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða. Aðspurð um hvort að sjóðirnir séu ekki reiðubúnir að taka á sig kostnað vegna breytinga á þessum skuldum segir Þórey: „Þetta snýst ekki um kostnað, þeir hafa ekki heimildirnar."

Helgi Hjörvar formaður efnahags- og viðskiptanefndar segir þessa afstöðu vonbrigði.

„Lífeyrissjóðirnir hafa gengið mun skemra í skuldaúrræðum gagnvart sínum lántakendum heldur en bæði bankar og íbúðalánasjóður," segir Helgi „Ef sjóðirnir telja að þá skorti lagaheimildir til að gera það sama og aðrir eru að gera, þá hljóta þeir að leita til okkar í þinginu til að breyta lögunum og ég er viss um að við myndum taka slíku erindi vel."

„Mér finnst það vekja ákveðnar efasemdir um það hvort að sjóðirnir eigi erindi inn á neytendalánamarkað. Það að þeir séu ekki tilbúnir að gera það sama fyrir skuldara hjá sér og bankarnir og íbúðalánasjóður eru tilbúnir að gera. Þeir verða að vera tilbúnir til að koma til móts við fólk með svipuðum hætti og aðrir aðilar á þessum markaði ef að þeir ætla að vera á þessum markaði," segir Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×