Innlent

Kattafár í Svarfaðardal veldur lambadauða

Boði Logason skrifar
„Niðurstaðan liggur fyrir og það er staðfest að þetta er svokölluð Bogfrymlasótt, einfrumungur sem smitast frá villiköttum og í heyið sem ærnar éta,“ segir dýralæknir.
„Niðurstaðan liggur fyrir og það er staðfest að þetta er svokölluð Bogfrymlasótt, einfrumungur sem smitast frá villiköttum og í heyið sem ærnar éta,“ segir dýralæknir. myndin úr safni
„Þetta er auðvitað gríðarlegt tjón fyrir mig sem að öllum líkindum fæst ekki bætt," segir Sigurður Bjarni Sigurðsson, bóndi á bænum Brautarhóli í Svarfaðardal. Á annað hundrað lömb hafa drepist eða fæðst andvana á bænum á síðustu mánuðum vegna einfrumungar sem borist hefur í fóður frá villiköttum sem leika lausum hala í sveitinni. Dýralæknir segir að fleiri bændur á svæðinu hafi lent í því sama.

Um er að ræða svokallaða Bogfrymlasótt sem er nokkuð algeng í sveitum en hún er þó árstíðarbundin. Einfrumungurinn á upphaflega upptök sín í músum og fuglum en smitast þaðan í villiketti sem skíta í heyið sem kindurnar borða.

Sigurður Bjarni segir að allan apríl hafi það komi fyrir að ær bæru dauðum eða ófullburða lömbum. „Þetta var mikið hérna áður fyrr en þetta hvarf eiginlega alveg eftir að það var farið að gera rúllur. Þá er ólíklegt að það komi köttur og skíti í heyið þegar heyið er í rúllum," segir Sigurður Bjarni.

Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir á Akureyri, segir að tekin hafi verið sýni af bænum hjá Sigurður Bjarna og þau send í Háskólann að Keldum.

„Niðurstaðan liggur fyrir og það er staðfest að þetta er svokölluð Bogfrymlasótt, einfrumungur sem smitast frá villiköttum og í heyið sem ærnar éta. Ærnar geta myndað ákveðið ónæmi gegn þessu en það hefur ekki náðst í þessu tilviki," segir hann.

Fleiri bæir í Svarfaðardal hafa lent í því sama en þó ekki í sama mæli og Sigurður Bjarni á Brautarhóli. „Það eru líkur á að þetta sé á fleiri bæum í dalnum en við erum að skoða það nánar. Þetta er nátturlega mikið tjón fyrir bændurna. Við verðum að finna út hvernig er hægt að koma í veg fyrir þetta."

„Við ætlum að setjast yfir þetta í lok sauðburðar og skoða hvernig þessi mál eru. Menn þurfa að vera mjög vakandi að útrýma villiköttum um leið og þeir verða varir við þá. Það þarf að gera ráðstafanir," segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×