Innlent

Getur ekki gert upp á milli Clapton og Simon: "Ég elska þá alla"

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Heimsþekktur trommuleikari ráðleggur upprennandi trommurum að fylgja hjarta sínu og ástríðu. Hann vill ekki gera upp á milli Eric Clapton og Paul Simon.

Hátt í fjögur hundruð tónlistarmenn voru mættir í Austurbæ í dag til að hlusta á og læra af trommuleikaranum Steve Gadd sem margir segja að sé lifandi goðsögn í trommuheiminum. Steve spilaði á tónleikum með James Taylor í gærkvöldi og var spenntur fyrir námskeiðinu þegar við hittum hann við hljóðprufu í dag.

„Hugmyndin er að skiptast á hugmyndum og svara spurningum, ekki bara um trommuleik heldur um þennan bransa og það sem gengur á í huga manns og maður þarf að vinna bug á þegar maður verður stressaður. Við göngum allir í gegnum það sama," segir Steve.

Hann segir svona námskeið bæði vera lærdómsrík fyrir hann og áhorfendur og ráðleggur ungum trommurum að fylgja ástríðu sinni.

„Gera það sem hjartað býður, reyna eins og maður getur. Velgengni er ekki að ná á einhvern stað heldur að njóta leiðarinnar."

Hann á þó erfitt með að gera upp á milli tónlistarmanna sem hann hefur leikið með en þar eru engin smá nöfn á borð við Eric Clapton og Paul Simon.

„Ég elska þá alla."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×