Enski boltinn

Carrick: Tímabilið klárast ekki í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Michael Carrick, leikmaður Manchester United, segir að leikurinn við Manchester City í kvöld verði mikilvægur en muni þó ekki endilega hafa úrslitaáhrif á titilbaráttuna.

United er á toppnum með þriggja stiga forystu á City en eftir leikinn í kvöld verða tvær umferðir eftir af tímabilinu.

„Þetta eru auðvitað þau tvö lið sem eru að berjast um titilinn og því eru stigin sem verða í boði í kvöld afar mikilvæg," sagði Carrick í viðtali á heimasíðu United.

„En ég held ekki að þetta sé úrslitaleikur tímabilsins. Eftir leikinn eru enn tveir leikir eftir og miðað við síðustu tvær vikur getur allt enn gerst."

„Ég geri mér þó grein fyrir því að sigur í kvöld væri afar mikilvægur fyrir okkur. En sigur myndi ekki gera okkur að meisturum."

United gerði um síðustu helgi 4-4 jafntefli við Everton og segir Carrick að það sé skýrt dæmi um að allt geti gerst í ensku úrvalsdeildinni. „Síðan ég kom til félagsins höfum við aldrei unnið titilinn fyrr en í síðustu leikjum tímabilsins. Eins og málin standa nú erum með þriggja stiga forystu þegar þrír leikir eru eftir. Mér finnst að margir hafi gleymt því."

Leikurinn hefst klukkan 19.00 í kvöld og er hann í beinni útsendingu á Stöð 2 sport 2. Upphitun hefst klukkan 18.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×