Innlent

Var það andsvar Ögmundar sem jók gubbupestina?

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kristján L. Möller. Lá heima í pest í gærkvöldi undir umræðum frá Alþingi.
Kristján L. Möller. Lá heima í pest í gærkvöldi undir umræðum frá Alþingi.
Kristján L. Möller, helsti baráttumaður Vaðlaheiðarganga, segir að gubbupest sín hafi aukist þegar hann hlustaði rúmfastur í gærkvöldi á ræður sumra á Alþingi um jarðgöngin. Kristján gefur í skyn að það hafi verið andsvar Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra sem hafði þessi áhrif.

Kristján L. Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, var meðal frummælanda á fundi sem Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins héldu í morgun um opinberar fjárfestingar í ljósi rammaáætlunar, samgönguáætlunar og nýs Landspítala. Kristján ræddi meðal annars um Vaðlaheiðargöng og kvaðst hafa legið heima með pest í gærkvöldi en fylgst með umræðum frá Alþingi um málið í sjónvarpi. Sagði Kristján að orð sumra hefðu haft þau áhrif að gubbupestin jókst.

En hvað var það sem fór svona illa í Kristján?

Í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar sagði Kristján að ýmsar ræður hefðu verið haldnar, þó ekki mjög margar, en þar hefðu menn meðal annars rangtúlkað staðreyndir, og kannski vísvitandi farið með rangt mál um forsendur. Spurður hvað hann hafi verið óhressastur með svarar Kristján:

„Ég ætla nú ekkert að fara út í einstaka liði en ég tók eftir því að innanríkisráðherra fór í andsvar við fjármálaráðherra sem flutti málið. Ég tók meðal annars eftir því."

Kristján kveðst ekki vilja fara nánar út í þetta en nefnir að Vaðlaheiðargöngin hafi verið sett í stöðugleikasáttmálann vorið 2009.

„Og ég var á fundi með innanríkisráðherra á Akureyri þar sem hann sagði, og fundaði með fulltrúum þar, og endaði fundinn með því að við skyldum ýta málinu af stað og fara á fulla ferð. Og eftir því var unnið. En síðan sjáum við þau andmæli sem verkið fær, meðal annars hjá innanríkisráðherra," sagði Kristján L. Möller.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×