Innlent

Æstist yfir leik Real og Bayern - lögreglan kölluð til

Leikurinn umræddi var á milli Real Madrid og Bayern Munchen.
Leikurinn umræddi var á milli Real Madrid og Bayern Munchen. mynd/AFP
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út vegna hávaða í heimahúsi í gær. Húsbóndinn kom til dyra og viðurkenndi að hann bæri ábyrgð á látunum enda var æsispennandi fótboltaleikur í sjónvarpinu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni þvertók maðurinn fyrir að hann væri að rífast við konu sína og börn og að hávaðinn ætti sér eðlilegar skýringar.

Maðurinn sagði að hann væri að horfa á undanúrslitaleika í Meistaradeild Evrópu. Viðureignin var æsispennandi enda komin framlenging. Þá sagði hann að kappið hefði borið hann ofurliði.

Þetta var tekið gott og gilt. Maðurinn var hins vegar beðinn um að reyna að róa sig og taka þar með tillit til nágrannanna í blokkinni. Engar frekari kvartanir bárust vegna mannsins og því líklegt að honum hafi tekist að róa taugarnar.

Leikurinn umræddi var á milli Real Madrid og Bayern Munchen. Samkvæmt lögreglunni er ekki vitað hvort liðið maðurinn studdi en Bayern Munchen hafði betur í vítaspyrnukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×