Innlent

Lögreglan ekki eins sýnileg og áður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglan er ekki eins sýnileg og áður samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Gallup gerði fyrir Ríkislögreglustjóra.
Lögreglan er ekki eins sýnileg og áður samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Gallup gerði fyrir Ríkislögreglustjóra. mynd/ vilhelm.
Almenningur telur lögregluna ekki nærri því eins sýnilega og áður var, samkvæmt niðurstöðum þolendakönnunar sem gerð var á vegum Ríkislögreglustjóra. Könnunin nær til ársins 2010 en niðurstöðurnar voru fyrst birtar opinberlega í morgun.

Niðurstöðurnar sýna að 17% svarenda sjá lögreglumann eða lögreglubíl í byggðarlagi sínu nær daglega eða oftar. Árið 2008 var hlutfallið hins vegar mun hærra, eða 30% og árið 2007 var það 32%. Að sama skapi fjölgar þeim gríðarlega sem segjast sjá lögreglumann eða lögreglubíl sjaldnar en mánaðarlega. Árið 2010 voru þeir 21% en voru 11,7% árið 2007.

Samkvæmt upplýsingum Vísis er talið að ein ástæðan fyrir þessum minnkandi sýnileika lögreglunnar sú að lögreglan er einfaldlega ekki eins mikið á ferð og hún var. Upplýsingar um akstur lögreglubíla styðja þessa skýringu en akstur lögreglubíla á höfuðborgarsvæðinu hefur til að mynda minnkað um 31% á árunum 2007 - 2011. Á árinu 2007 voru tæplega 1996 þúsund kílómetrar eknir á höfuðborgarsvæðinu. Á árinu 2011 voru aftur á móti 1383 þúsund kílómetrar eknir.

Aksturinn hefur minnkað í öllum lögregluumdæmum, nema á Suðurnesjum þar sem hann hefur aukist um 2%. Aksturinn hefur minnkað um meira en helming í tveimur lögregluumdæmum á landinu. Það er Akranes og Blönduós.

Fyrrnefnd þolendakönnun lögreglunnar var framkvæmd dagana 20. maí til 21. júní 2011. Úrtakið var 4.007 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri. Það var Capacent Gallup sem sá um könnunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×