Innlent

Ragnar greiði Árna og Friðriki miskabætur

Ragnar Önundarson.
Ragnar Önundarson.
Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur var í dag dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness til þess að greiða þeim Árna Haukssyni og Friðriki Hallbirni Karlssyni, hvorum fyrir sig, 300 þúsund krónur í miskabætur fyrir að kalla þá í blaðagreinum í Morgunblaðinu á síðasta ári „féfletta". Þá skulu ummælin vera dauð og ómerk. Þá skal Ragnar greiða stefnendum 200 þúsund krónur til að kosta birtingu dómsins í opinuberu blaði. Að auki skal Ragnar greiða þeim Árna og Friðriki 600 þúsund krónur í málskostnað.

Árni og Friðrik höfðu krafist þess að Ragnari yrði gerð refsing í málinu sem snýst um tvær greinar sem Ragnar skrifaði í Morgunblaðið, annars vegar í lok ágúst og hins vegar í lok september. Þar var fjallað um viðskipti tvímenninganna með Húsasmiðjuna og hlut í Högum og kallaði Ragnar mennina ítrekað „féfletta", með þeim rökum að þeir hefðu stundað eignatilfærslur en ekki fjárfestingar og þannig hagnast óeðlilega á kostnað hluthafa. Það eru þau ummæli sem krafist var ómerkingar á.

Dómara þóttu rök stefnenda fyrir því að fá Ragnar dæmdan til refsingar „næsta knöpp" og voru ekki talin næg efni til að fallast á þá kröfu. Hinsvegar taldi dómarinn að í ummælum Ragnars fælist „ólögmæt meingerð gegn persónu og æru stefnenda" og því bæri hann miskabótaábyrgð. Að mati dómarans voru ummæli Ragnars í heild sinni „algerlega tilhæfulaus, óviðurkvæmileg og ærumeiðandi í því samhengi sem þau voru birt." Því sé niðurstaða dómsins sú að ummælin í heild sinni séu móðgandi og meiðandi fyrir stefndendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×