Innlent

Komnir í gegn á Hrafnseyrarheiði

Frá Hrafnseyrarheiði. Mikið fannfergi varð til þess að Vegagerðin hætti við að moka í síðasta mánuði.
Frá Hrafnseyrarheiði. Mikið fannfergi varð til þess að Vegagerðin hætti við að moka í síðasta mánuði.
Hrafnseyrarheiði var opnuð fyrir umferð um tíuleytið í morgun, í fyrsta sinn frá því í desember, eftir viðamikinn snjómokstur undanfarna daga. Vegagerðarmenn hafa í morgun unnið að því skrapa ís af veginum norðanmegin og átti því verki að ljúka nú um hádegisbil, að sögn Geirs Sigurðssonar, rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á Ísafirði.

Þá eru snjómokstursmenn langt komnir með að ryðja Dynjandisheiði og lýkur því verki um miðjan dag. Þar með opnast Vestfjarðavegur milli Flókalundar og Þingeyrar og unnt verður á ný að komast akandi stystu leið á milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar. Það þýðir meðal annars að íbúar á norðanverðum Vestfjörðum geta nýtt sér ferðir Baldurs yfir Breiðafjörð frá Brjánslæk.

Til stóð að moka heiðarnar í síðasta mánuði en hætt var við það vegna mikils fannfergis og það var fyrst í fyrradag sem Vegagerðin treysti sér til að hefja snjómokstur þar af fullum krafti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×