Innlent

Skoða rammalöggjöf um starfsemi fjármálafyrirtækja

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Rammalöggjöf um alla starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja og fjármálastöðugleikaráð er meðal hugmynda sem starfshópur á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins mun skoða á næstu mánuðum. Ráðherra vonast til að með slíkum aðgerðum megi styrkja fjármálakerfið og koma í veg fyrir annað hrun.

Efnahags- og viðskiptaráðherra kynnti í dag skýrslu um framtíðarskipan íslenska fjármálakerfisins og opinbert eftirlit með því. Í skýrslunni er farið yfir orsakir hrunsins og fjármálakreppuna í kjölfar þess í alþjóðlegu samhengi. Þá hefur ráðherra skipað þriggja manna sérfræðingahóp sem mun fara yfir skýrsluna og leggja fram tillögur til frumvarps fyrir næsta haustþing um samræmda heildarlöggjöf.

„Til þess að koma í veg fyrir að það geti nokkurn tímann aftur gert að fjármálakerfi fúi að innan, vaxi okkur yfir höfuð og hrynji síðan yfir okkur, það má aldrei gerast aftur og þetta er liður í þeirri vinnu að það svo verði," segir Steingrímur J. Sigfússon.

Hann segir eitt einkenni hrunsins vera að eftirlit með fjármálakerfinu var of mikið miðað við einstaka einingar þegar í raun var heildarkerfið ekki í lagi.

„En kannski voru brotalamirnar ekki síst í því að stjórnvöld, löggjafi og framkvæmdavald voru ekki í þeim skipulagslegu tengslum sem þurfti og ábyrgðin lá á mörgum stöðum," segir Steingrímur.

Meðal hugmynda í skýrslunni eru regnhlífarlög allra fjármálafyrirtækja til að tryggja að sömu ákvæði gildi um alla. Eftirlit með slíkum lögum væri þá í höndum svokallaðs stöðugleikaráðs.

„Þarna þurfa aðilar að geta komið saman eins og ráðuneyti, FME, Seðlabanki og jafnvel fleiri sem geta á slíkum vettvangi sameiginlega metið stöðuna," segir Steingrímur og bætir við:

„Það er ein af hugmyndunum sem þarna er reifuð að sett verði regnhlífarlög sem taka sérstaklega á og ganga frá því hver ber ábyrgð á fjármálastöðugleika hver hefur frumkvæðisskyldu og aðgerðarskyldu gagnvart þeim hlutum, hvernig vinnur kerfið saman og allar upplýsingar komi saman á einn stað þar sem einhver myndugur aðili getur tekið það saman og fylgst með því nú vitum við að það er ekki nóg að fylgjast með hverri stofnun fyrir sig ef allur skógurinn er sýktur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×