Íslenski boltinn

Svarthvítur Jesús á Akureyri

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björn ásamt félögum sínum í miðbæ Akureyrar í gærkvöldi.
Björn ásamt félögum sínum í miðbæ Akureyrar í gærkvöldi. Mynd / Twittersíða Atla Sigurjónssonar
Akureyringum og nærsveitungum brá vafalítið í brún í miðbæ Akureyrar í gærkvöldi þar sem svo virtist sem heilagur Jesús Kristur væri mættur til leiks. Þegar betur var að gáð var um Björn Jónsson, knattspyrnumann úr KR, að ræða.

„Ég var í spurningakeppni gegn Atla (Sigurjónssyni) á útvarpsstöðinni FM 957 í gær. Ég tapaði og Atli fékk að velja refsingu. Hann valdi að ég færi niður í bæ klæddur sem Jesús," sagði Björn eldhress í spjalli við Vísi í dag.

Björn er ásamt leikmönnum úr meistaraflokki KR í skemmtiferð norðan heiða. Líkt og á síðasta ári var ákveðið að gera sér dagamun hér innanlands í stað þess að fara í æfingaferð út fyrir landssteinana. KR-ingar urðu Íslands- og bikarmeistarar á síðasta ári og því óþarfi að breyta til.

Björn segir þá liðsfélagana hafa notast við lak úr herberginu, klippt það til og svo haldið á vit ævintýranna í miðbæð Akureyrar. Liðsfélagar hans voru duglegir að birta myndir af félaga sínum á Facebook og Twitter. Afraksturinn má sjá hér að ofan.

Björn, sem gekk til liðs við KR á síðasta ári eftir veru í Hollandi, hefur fengið viðurnefnið Jesú í Vesturbænum en Björn er hárfagur með meiru. Hann segist aldrei hafa verið líkt við son guðs í Hollandi.

„Nei, alls ekki. Þetta þótti bara venjulegt þar. Ég hélt að það væri líka venjulegt hér en greinilega ekki," sagði Björn léttur og sagði þá félaga hafa skemmt sér vel í gærkvöldi.

„Ég fékk fullt af fríum drykkjum út á þetta og margir vildu fá myndir af sér með mér. Það var nóg að gera," sagði Björn en bætti við að margir hefðu beðið hann um að hjálpa sér í gærkvöldi með að breyta vatni í vín.

„Það voru margir sem spurðu mig þeirrar spurningar. Það var mjög fyndið," sagði Björn en KR-ingarnir voru nýkomnir úr sundi og létu vel af veru sinni í höfuðstað Norðurlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×