Íslenski boltinn

Íslensku strákarnir í úrslit á EM eftir upprúllun á Litháum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd / UEFA.com
Íslenska drengjalandsliðið í knattspyrnu skipað leikmönnum 17 ára og yngri lagði Litháa að velli 4-0 í lokaleik milliriðils síns í Skotlandi í dag. Með sigrinum tryggði liðið sér sæti í úrslitakeppninni í Slóveníu í maí.

Óliver Sigurjónsson, leikmaður AGF, kom íslensku strákunum á bragðið í Dumbarton í dag með marki úr vítaspyrnu á 15. mínútu. Blikinn Páll Þorsteinsson bætti öðru marki við á 21. mínútu og Ísland 2-0 yfir í hálfleik.

Íslensku strákarnir vissu að þeir þyrftu að vinna stórt í baráttu sinni við Dani um efsta sætið í riðlinum.

Í síðari hálfleik bættu strákarnir við tveimur mörkum. Fyrst skoraði Þróttarinn Daði Bergsson áður en FH-ingurinn Kristján Flóki Finnbogason rak smiðshöggið tíu mínútum fyrir leikslok.

Danir sigruðu Skota 3-2 í hinum leik riðilsins. Danir enduðu með jafnmörg stig og íslensku strákarnir en með lakara markahlutfall.

Frábær árangur hjá íslensku strákunum og verður fróðlegt að fylgjast með gengi þeirra í úrslitakeppninni í Slóveníu í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×