Fótbolti

Norðmenn greiða um 250 milljónir fyrir vináttuleik gegn Englandi

Joe Hart er landsliðsmarkvörður Englands og enska liðsins Manchester City.
Joe Hart er landsliðsmarkvörður Englands og enska liðsins Manchester City. Getty Images / Nordic Photos
Noregur og England eigast við í vináttulandsleik í fótbolta karla þann 26. maí og verður þetta einn dýrasti fótboltaleikur í sögu norska knattspyrnusambandsins. Samkvæmt frétt Dagbladet nemur kostnaðurinn við leikinn um 250 milljónir kr. og þar af fær enska knattspyrnusambandið um 220 milljónir kr. í sinn hlut.

England mun mæta með sitt allra sterkasta lið, 23 manna hóp, sem verður lokaúrtökuhópurinn fyrir Evrópumeistaramótið sem fram fer í sumar í Póllandi og Úkraínu.

Gera má ráð fyrir að kostnaður norska knattspyrnusambandsins verði mun meiri en 250 milljónir kr. því einhver kostnaður fylgir uppihaldi enska liðsins og þar má nefna gistingu og ferðakostnað.

Norðmenn hafa áður greitt háar fjárhæðir til þess að fá landslið í heimsókn á Ullevaal. Talsmaður norska knattspyrnusambandsin segir að það hafi verið dýrara að fá Brasilíumenn í heimsókn árið 2006. Heimsókn Argentínu ári síðar kostaði meira en heimsókn enskra til Noregs.

Stuðningsmenn norska landsliðsins þurfa að greiða hátt verð fyrir miða á leikinn gegn Englandi. Ódýrustu miðarnir kosta um 12.000 kr. og þeir dýrustu kosta um 17.000 kr. Barnamiðar kosta hinsvegar um 3.300 kr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×