Íslenski boltinn

Sigurður Ragnar: Bara með þrjá varamenn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari. Mynd/Anton
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska landsliðsins, segir að leikmenn Íslands hafi verið áberandi þreyttir gegn danska liðinu á Algarve-mótinu í dag.

Ísland tapaði leiknum, 3-1, og endaði því í sjötta sæti á mótinu. Mikið hefur verið um meiðsli í íslenska liðinu og fjölmargir leikmenn hafa helst úr lestinni síðustu daga.

„Ég var bara með þrjá varamenn í dag," sagði Sigurður Ragnar. „Sem er ótrúlegt miðað við að ég valdi 21 leikmann fyrir mótið. Svo mátti sjá að þeir leikmenn sem spiluðu leikinn voru orðnir mjög þreyttir."

„Við byrjuðum ekki nógu vel og fengum á okkur mark strax í upphafi leiksins. Það er ekki gott að gefa hinu liðinu mark í forgjöf en vörnin okkar svaf á verðinum."

„En við unnum okkur inn í leikinn og það byrjaði að ganga betur þegar við færðum liðið aðeins aftar. Við vorum orðnar það þreyttar að það gekk illa að spila framarlega."

„Hólmfríður skoraði svo eftir að hafa sett góða pressu á markvörðinn og Gunnhildur fékk svo gott færi í stöðunni 2-1. Það voru vonbrigði að nýta það ekki. Svo skoruðu Danirnir mark undir lokin og því fór sem fór."

„En við þessu var að búast. Við erum með talsvert reynsluminna lið en oft áður og lykilmenn eins og Sara Björk og Margrét Lára voru hvíldir í dag. En þetta var góð reynsla og margir leikmenn sem stimpluðu sig inn í landsliðið með frammistöðu sinni hér úti."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×