Innlent

Ekki hægt að þvinga Landsbankann í Icesave-málinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, mætir fyrir dóm í dag.
Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, mætir fyrir dóm í dag. mynd/ gva.
Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagðist hafa verið byrjaður að gera sér grein fyrir því í lok árs 2007 eða snemma árs 2008 að hætta myndi skapast vegna svokallaðra Icesave-reikninga í Bretlandi. Aðspurður fyrir Landsdómi, sagðist hann ekki muna eftir tilkynningu frá Landsbankanum til FME, 10. mars 2008 um að bankinn væri að opna slíka reikninga í Hollandi.

Jónas segir það aftur á móti alveg ljóst að ekki hafi verið nein úrræði fyrir íslensk stjórnvöld eða eftirlitsaðila til þess að þvinga Landsbankann að færa Icesave-reikningana yfir í erlend dótturfélög. EES reglur hefðu ekki heimilað það. Það var hins vegar reynt að þrýsta á þá að gera það. „Við þrýstum á Landsbankann og vorum í samskiptum við bresk stjórnvöld frá sumri 2008," sagði Jónas Fr. fyrir dómi í dag.

Jónas sagði að Bretar hefðu gert verulegar kröfur um eigið fé sem hefði þurft að fylgja í dótturfélag Landsbankans ef færa hefði átt innistæðurnar í dótturfélagið. Erfitt hefði verið fyrir Landsbankans að verða við þessum kröfum. „Menn vildu ganga þannig frá því að Landsbankinn færi ekki á hausinn sökum umtals eða vegna þess að hann færði of mikið af eignum yfir," sagði Jónas.

Hann sagðist aldrei hafa verið í samskiptum við Geir Haarde vegna Icesave-reikninganna eða þá hættu sem sköpuðust af þeim. Geir Haarde er meðal annars ákærður fyrir að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×