Fótbolti

Cruyff vill halda Eriksen hjá Ajax í fimm ár til viðbótar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Eriksen, lengst til hægri, fagnar marki með Kolbeini Sigþórssyni og Miralem Sulejmani.
Christian Eriksen, lengst til hægri, fagnar marki með Kolbeini Sigþórssyni og Miralem Sulejmani. Mynd/Nordic Photos/Getty
Johan Cruyff hefur ráðlagt danska miðjumanninum Christian Eriksen að spila með Ajax-liðinu næstu árin en mörg stórlið í Evrópu hafa sýnt Dananum unga mikinn áhuga.

„Ég var sjálfur hjá Ajax þar til að ég varð 26 ára. Eriksen hefur sannfært mig um að hann geti farið í eitt af bestu liðinum en hann þarf að bíða þar til að topplið er tilbúið að kaupa hann frá Ajax. Hann á að vera hjá Ajax næstu fimm árin," sagði Johan Cruyff sem fór til Barcelona þegar hann yfirgaf Ajax.

Cruyff bætist þar með í hóp með Frank de Boer, þjálfara Ajax, sem báðir vilja að Eriksen spili áfram með Kolbeini Sigþórssyni hjá Ajax. Samningur Eriksen við Ajax rennur út sumarið 2014 en hann hefur verið hjá félaginu frá 2008.

Christian Eriksen hefur skorað 5 mörk og gefið 12 stoðsendingar í fyrstu 22 deildarleikjum sínum á þessu tímabili og vantar aðeins eitt mark til að jafna markaskor sitt frá því í fyrra.

Christian Eriksen fær tækifæri til að spila á Old Trafford á morgun þegar Ajax mætir Manchester United í seinni leik liðanna í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×