Innlent

Hart deilt um afskipti þingmanna í mótmælunum

Álfheiður Ingadóttir brást hart við ræðu Jóns og sakaði hann um lygar.
Álfheiður Ingadóttir brást hart við ræðu Jóns og sakaði hann um lygar.
Jón Gunnarsson þingmaður sjálfstæðisflokksins tók til máls á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins og minntist á umræðu síðustu daga í kjölfar ummæla Geirs Jóns Þórissonar yfirlögregluþjóns sem í viðtali í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni. Þar sagði Geir Jón að lögregla hefði grun um að nokkrir þingmenn hefðu stýrt fólki fyrir utan Alþingishúsið þegar mótmælin á Austurvelli stóðu sem hæst.

Jón sagðist undrast ummæli sem þingmenn á borð við Steingrím J. Sigfússon og Álfheiður Ingadóttir hafi látið falla síðustu daga. Hann sagði þau saka Geir Jón um að bera á sig dylgjur. Að mati Jóns gerði Geir Jón ekki annað en að svara spurningum þáttastjórnanda „og nefndi þar engin nöfn."

Jón sagði ennfremur að vissulega hefðu spurningar vaknað í mótmælunum. Hann sagðist meðal annars spyrja sig hvernig á því hafi staðið að hópur mótmælenda hefði farið og teppt innkeyrsluna í bílageymslu Alþingis um leið og lögregla hugðist færa handtekna mótmælendur þangað.

„Maður spyr sig hvort ummæli háttvirts þingmanns hér á göngunum að lögreglan gangi hart fram í því að verja Alþingi og að í lagi væri að mótmælendur færu um Alþingishúsið, brytu hér allt og brömluðu," sagði Jón og bætti við að sami þingmaður hafi sagt: „Þetta eru hvort eð er allt dauðir hlutir."



„Hættu þessum lygum Jón Gunnarsson!"



Álfheiður Ingadóttir þingkona VG greip þrívegis fram í fyrir Jóni á meðan á ræðu hans stóð og kallaði: „Hættu þessum lygum Jón Gunnarsson!"

Jón hélt áfram og sagði: „Eru þetta ummæli sem eru til þess fallin að draga úr mótmælum eða hvetja til þeirra virðulegi forseti." Jón sagðist ennfremur spyrja sig hvort „ummæli sem þingmenn létu falla við lögreglumenn vegna veru þeirra hér í Alþingishúsinu hafi verið eðlileg. Þau voru þess eðlis allavega að mörgum lögreglumanninum bauð það helst að hverfa af vettvangi eftir slík ummæli."

Jón spurði einnig hvers vegna framkomin tillaga framsóknarmanna um rannsókn Alþingis á málinu fái ekki framgang í þinginu. „Sannleikanum er kannski hver sárreiðastur," sagði Jón að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×