Enski boltinn

Wenger: Meistaradeildarsæti ígildi titils

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Það hefur sigið á ógæfuhliðina hjá Arsenal undanfarin ár og Wenger hefru sætt töluverðri gagnrýni.
Það hefur sigið á ógæfuhliðina hjá Arsenal undanfarin ár og Wenger hefru sætt töluverðri gagnrýni. Nordic Photos / Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir mikilvægt fyrir félagið að tryggja sér fjórða sæti deildarinnar. Wenger sætir mikilli gagnrýni eftir slæm úrslit Lundúnarfélagsins undanfarið.

Wenger sagði á blaðamannafundi að loknu tapinu gegn Sunderland í enska bikarnum um helgina að Meistaradeildarsæti væri ígildi bikars fyrir félagið. Arsenal hefur ekki unnið til verðlauna síðan liðið hampaði enska bikarnum vorið 2005.

„Þegar allir eru heilir og þá er félagið til alls líklegt og við munum bæta við eftir þörfum," sagði Wenger þegar hann var spurður hvort hann ætlaði sér að styrkja leikmannahópinn næsta sumar.

„Í augnablikinu erum við ekki að gera áætlanir fyrir næsta tímabil. Við erum að undirbúa næsta leik," sagði Wenger. Franski stjórinn hefur tæpa viku til að undirbúa liðið fyrir Lundúnarslag gegn Tottenham á sunnudag.

Meiðsli hafa hrjáð leikmenn Arsenal meir en góðu hófi gegnir á tímabilinu. Wenger sagði að ekkert félag mega við meiðslum á borð við þau sem Lundúnarfélagið hefur glímt við.

„Það eru margir fjarverandi, meðal annars mjög mikilvægir leikmenn. Það er kominn febrúar og Jack Wilshere hefur ekki spilað leik, Abou Diaby hefur ekki spilað leik, Per Mertesacker er frá út tímabilið og André Santos er frá í þrjá mánuði," sagði Wenger.

O'Neill: Wenger er stórkostlegur knattspyrnustjóri

Martin O'Neill, stjóri Sunderland, tók upp hanskann fyrir Wenger að lokinni viðureign liðanna.

„Þetta hefur verið erfið vika fyrir hann. Það er allt og sumt. Allir hafa upplifað erfiðar vikur. Það er ekkert að honum. Það er ekkert vandamál. Hann er stórkostlegur knattspyrnustjóri."

Arsenal datt úr leik í enska bikarnum um helgina eftir 2-0 tap gegn Sunderland. Liðið er svo gott sem úr leik í Meistaradeildinni eftir niðurlægjandi 4-0 tap gegn AC Milan í fyrri leik liðanna á Ítalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×