Innlent

Gunnar Sigurjónsson býður sig fram til biskups

Gunnar segir að Þjóðkirkjan gegni einnig hlutverki sem stofnun.
Gunnar segir að Þjóðkirkjan gegni einnig hlutverki sem stofnun.
Séra Gunnar Sigurjónsson, sóknarprestur í Digraneskirkju, ætlar að bjóða sig fram til biskups. Hann vill taka höndum saman með þeim sem vilja vinna Þjóðkirkjunni til heilla með því að gera veg Krists sem mestan meðal fólks.

Í yfirlýsingu frá Gunnari segir hann að hlutverk Þjóðkirkjunnar sé að greiða veg Jesú Krists meðal fólks og „að miðla orði hans og kærleika hans í verki."

Gunnar segir síðan að Þjóðkirkjan gegni einnig hlutverki sem stofnun.

„Sem slík axlar hún margvíslega ábyrgð og hefur ríkum skyldum að gegna í samfélaginu. Í því felast áskoranir og vandi í senn. Sem stofnun má kirkjan margt læra og bæta. Hún þarf að ástunda heilbrigða stjórnsýslu. En umfram allt þarf hún að miða skipulag sitt að því að geta tekist sem best á hendur það hlutverk sem henni er ætlað að sinna."

Hægt er að sjá yfirlýsingu Sér Gunnars í heild sinni hér að neðan:

Hann á að vaxa en ég að minnka!

Yfirlýsing frá sr. Gunnari Sigurjónssyni sóknarpresti í Digraneskirkju

„Hann á að vaxa en ég að minnka." (Jóh 3.30)

Þessi orð mælti Jóhannes skírari og vísaði þar til Jesú Krists. Það var köllun Jóhannesar að beina sjónum fólks til hans. Jóhannes sá það fyrst og síðast sem hlutverk sitt að greiða Jesú sjálfum veg á meðal fólks. Allt sem hann sagði og gerði þjónaði að því marki.

Þessi orð Jóhannesar skírara koma mér til hugar er ég lýsi nú yfir framboði mínu til embættis biskups Íslands. Þau vil ég gera að einkunnarorðum mínum og leiðarljósi.

Hlutverk Þjóðkirkjunnar er fyrst og síðast að greiða Jesú Kristi veg á meðal fólks, að miðla orði hans og kærleika hans í verki, ekki síst til þeirra sem halloka fara í samfélagi manna. Það á að vera kirkjunni leiðarljós. Öll störf hennar eiga að miða að því einu og þjóna að því marki. Þar birtist líka hin eiginlega kirkja, þar sem hugsanir, orð og breytni fólks mótast af vilja Jesú Krists.

Þjóðkirkjan er einnig öðrum þræði stofnun. Sem slík axlar hún margvíslega ábyrgð og hefur ríkum skyldum að gegna í samfélaginu. Í því felast áskoranir og vandi í senn. Sem stofnun má kirkjan margt læra og bæta. Hún þarf að ástunda heilbrigða stjórnsýslu. En umfram allt þarf hún að miða skipulag sitt að því að geta tekist sem best á hendur það hlutverk sem henni er ætlað að sinna.

Þjóðkirkja sem hagar störfum sínum með það að marki að gera veg Krists sem mestan á meðal fólks er kirkja á réttri leið. Sú kirkja er virðingarverð og eftirsóknarverð. Þeirri kirkju vil ég vinna það gagn sem mest ég má.

Ég býð mig ekki fram til embættis biskups Íslands vegna þess að ég telji mig vera betur til þess fallinn en aðra, heldur vegna þess að ég ber traust til alls þess góða fólks sem hefur hvatt mig áfram í starfi mínu. Ég vil taka höndum saman með þeim sem vinna vilja Þjóðkirkjunni til heilla með því að gera veg Krists sem mestan meðal fólks.

Virðingarfyllst,

Sr. Gunnar Sigurjónsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×