Innlent

Gera ekki kröfu um bæjarstjórastólinn

Boði Logason skrifar
Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Kópavogs.
„Það var eitt af megin kosningaloforðum Y-listans að ráða faglegan bæjarstjóra og við munum virða það," segir Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna í Kópavogi, aðspurður hvort þeir muni gera kröfu um bæjarstjórastólinn. Þeir hófu formlegar viðræður við Næst besta flokkinn og Y-lista - Lista Kópavogsbúa, í dag.

Í samtali við fréttastofu segir Ármann að í hádeginu dag hafi fulltrúar flokkanna þriggja hist og spjallað lítið saman. Viðræður þeirra munu þó hefjast formlega um helgina. „Það fór mjög vel á með okkur og það er óhætt að segja að við erum sammála um margt í megináherslum flokana varðandi þau verkefni sem eru framundan."

Eins og áður segir, munu sjálfstæðismenn virða þá kröfu Y-listans að bæjarstjórinn verði ráðinn á faglegum nótum. Aðspurður hvort að það komi til greina að Guðrún Pálsdóttir haldi áfram starfi sínu í bæjarstjórastólnum segir Ármann: „Það er bara eitt af því sem mun skýrast um helgina þegar og ef málefnasamningur verður gerður," segir hann.

Meirihlutinn sprakk þegar bæjarstjóra Kópavogs var sagt upp. Hjálmar Hjálmarsson, oddviti Næst besta flokksins, sagðist þá ekki geta unað við þau vinnubrögð sem einkenndu uppsögnin. Skömmu síðar gekk Listi Kópavogsbúa úr skaftinu. Sex bæjarfulltrúa þarf til að mynda meirihluta í Kópavogi. Sjálfstæðismenn eiga 4 fulltrúa, Næst besti flokkurinn 1 og Y-listi 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×