Enski boltinn

Steven Kean ráðinn án samráðs við stjórn Blackburn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stuðningsmenn fjölskyldufélagsins Blackburn hafa kvartað sáran yfir nýjum eigendum undanfarið ár.
Stuðningsmenn fjölskyldufélagsins Blackburn hafa kvartað sáran yfir nýjum eigendum undanfarið ár. Nordic Photos / Getty Images
Í áður óbirtu bréfi frá þremur fyrrverandi stjórnarmeðlimum Blackburn Rovers lýsa þeir yfir áhyggjum sínum með nýja eigendur félagsins, Venkys. Meðal annars kemur fram að ekkert samráð hafi verið haft við stjórnina varðandi brottvikningu Sam Allardyce úr starfi frekar en við ráðninguna á Steve Kean sem eftirmann hans. Þá kemur einnig fram að forsvarsmenn Venky's hafi hvatt Kean til þess að sniðganga stjórnina þegar kæmi að kaupum og sölum á leikmönnum.

Bréfið er dagsett þann 4. janúar 2011, um tveimur mánuðum eftir yfirtöku Venky's á Blackburn, og skrifað undir af John Williams, þáverandi stjórnarformanni Blackburn auk Tom Finn og Martin Goodman háttsettra manna hjá félaginu. Bréfið var sent til eins eigandans, Anuradha Desai, þar sem stendur meðal annars:

„Við upplifum það nú eins og stjórnin sé ekki einu sinni höfð með í ráðum þegar kemur að einhverjum mestu grundvallarákvörðunum sem knattspyrnufélag þarf að taka. Þar horfum við til brottreksturs knattspyrnustjórans (Sam Allardyce) og ráðningu nýs stjóra (Steve Kean). Við höfum ekki haft neitt um þessi skipti að segja og gerum ráð fyrir að nú standi yfir viðræður við Steve Kean um breytingar á þjálfarateyminu, aftur án nokkurrar ráðfæringar við okkur," segir meðal annars í bréfi þremenninganna til Desai.

Í bréfinu er einnig lýst yfir áhyggjum með stöðu mála varðandi félagaskipti en á þessum tíma var janúarglugginn, möguleiki félaga til þess að kaupa og selja leikmenn, nýopnaður.

„Að auki, og okkar mestu áhyggjur þegar félagaskiptaglugginn hefur verið opnaður, eru ráðleggingar ykkar til knattspyrnustjórans (Kean) að ráðfæra sig ekki við stjórnina varðandi kaup og sölur á leikmönnum. Hlutverk stjórnarinnar takmarkast samkvæmt því við að koma félagaskiptunum í gegn í stað þess að vinna eftir áætlun í samráði við ykkur eigendurna og fyrirfram ákveðið fjármagn sem er úr að spila."

Að lokum er lýst yfir áhyggjum varðandi hlutverk SEM-félagsins, í forsvari Jerome Anderson sem einnig er umboðsmaður Kean, þegar kemur að félagaskiptum. Nefndur er til sögunnar hinn 19 ára Rubén Rochina sem keyptur var frá Barcelona á 372 þúsund pund eða sem nemur um 72 milljónum íslenskum krónum. Umboðsmaður hans fékk hins vegar greiðslu upp á 1,65 milljón pund eða sem nemur um 318 milljónum íslenskra króna.

Fróðlegt verður að sjá hvaða áhrif þessi nýjustu tíðindi úr herbúðum Blackburn muni hafa á stuðningsmenn félagsins sem hafa lýst yfir mikilli óánægju með störf eigenda félagsins og ekki síst Steve Kean. Góð úrslit að undanförnu virðast þó hafa lægt öldurnar tímabundið.

Hér má lesa bréf stjórnarmannanna fyrrverandi til Venky's.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×