Enski boltinn

Gary Cahill orðinn leikmaður Chelsea

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fróðlegt verður að sjá hvernig Cahill tekur sig út í bláum búningi Chelsea.
Fróðlegt verður að sjá hvernig Cahill tekur sig út í bláum búningi Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea hefur staðfest kaupin á enska varnarmanninum Gary Cahill frá Bolton Wanderers. Kaupverðið er talið vera um sjö milljónir punda eða sem nemur 1,3 milljörðum íslenskra króna.

„Chelsea er frábært félag sem er líklegt til þess að vinna titla á hverju tímabili. Þetta er gott tækifæri fyrir mig að vera hluti af þannig liði. Maður hafnar ekki svona tækifærum," sagði Cahill eftir að gengið var frá samningum.

Kaupin á Cahill hafa verið yfirvofandi í tvær vikur eða síðan Chelsea og Bolton komust að samkomulagi um kaupverðið. Ágreiningur kom upp á milli Cahill og Chelsea varðandi launakröfur leikmannsins og sagði André Villas-Boas á tímabili að himinn og haf væri á milli aðilanna í þeim efnum.

Talið er að Cahill fái 80 þúsund pund í vikulaun eða sem nemur um 15 milljónum íslenskra króna.

Ekki er ólíklegt að með kaupunum á Cahill fái brasilíski varnarmaðurinn Alex loks að yfirgefa félagið. Varnarmaðurinn, sem hefur verið orðaður við QPR, fær ekki einu sinni að leggja bifreið sinni á bílastæði félagsins eftir að hafa líst yfir óánægju með veru sína þar og óskað eftir að komast í burtu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×