Enski boltinn

Henry biðst afsökunar á óvönduðu orðavali

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Henry þakkar stuðniningsmönnum fyrir eftir tapið gegn Swansea.
Henry þakkar stuðniningsmönnum fyrir eftir tapið gegn Swansea. Nordic Photos / Getty Images
Thierry Henry, sóknarmaður Arsenal, hefur beðist afsökunar á að blóta stuðningsmanni að loknu 3-2 tapi gegn Swansea í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag. Henry, sem gekk til liðs við Arsenal á tveggja mánaða lánssamningi fyrr í mánuðinum, viðurkenndi að hafa misst stjórn á skapi sínu þegar stuðningsmaður móðgaði hann.

„Ég var í uppnámi og mikið niðri fyrir á sunnudaginn, ekki aðeins vegna úrslitanna. Eftir að flautað var til leiksloka í þessum erfiða leik hvatti ég alla leikmennina til þess að þakka stuðningsmönnunum fyrir þeirra stuðning," sagði Henry sem blöskraði framkoma eins stuðningsmannsins gagnvart liðsfélögum sínum.

„Ég vildi koma honum í skilning um að við þyrftum á stuðningi að halda en ekki móðgunum. Boðskapurinn var réttur en ég hefði getað komið honum á framfæri á betri veg," sagði Henry sem sagðist fyrst og fremst biðjast afsökunar á óvönduðu orðavali í garð þessa stuðningsmanns.

„Skilaboðin áttu ekki að vera illgjörn eða ógnvekjandi og ég er meðvitaður um að ég hefði getað tjáð mig á betri hátt," sagði Henry sem kom inná sem varamaður í leiknum.

Henry hefur hvatt stuðningsmenn Arsenal til þess að standa þétt á bak við liðið um næstu helgi þegar Manchester United sækja Lundúnarliðið heim. Arsenal situr í 5. sæti deildarinnar, 15 stigum á eftir toppliði Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×