Enski boltinn

Brasilíumaðurinn Henrique á leið til QPR

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Henrique með verðlaun sín frá því í Kólumbíu síðasta sumar.
Henrique með verðlaun sín frá því í Kólumbíu síðasta sumar. nordic photos / getty images
Heiðar Helguson fær aukna samkeppni í framlínu QPR á næstunni en enska félagið hefur komist að samkomulagi við Sao Paulo í Brasilíu um félagaskipti framherjans Henrique. Óvíst er hvort Henrique komi til liðsins á láni eða verði keyptur til félagsins.

Henrique sem er 20 ára spilaði með U20 landsliði Brasilíu á HM í Kólumbíu síðastliðið sumar og var valinn besti leikmaður keppninnar auk þess að verða markakóngur. Hann segist spenntur yfir fyrirhuguðum vistaskiptum.

„Ég veit af áhuga fjölmargra liða. En þegar ég ræddi við Mark Hughes og QPR varð ég mjög spenntur yfir áætlunum þeirra. Ég vil fara til metnaðarfulls félags," sagði Henrique við dagblaðið The Sun.

„Knattspyrnustjórin er þekktur um allan heim. Hann lék með heimsfrægum félögum á borð við Manchester United og Barcelona, sem framherji. Ég veit að ég get lært mikið af honum. Ég hef alltaf viljað spila í Evrópu og enska deildin er sú mest spennandi í heiminum að mínu mati," sagði Henrique.

QPR mætir MK Dons í 3. umferð enska bikarsins á Loftus Road í kvöld og er leikurinn í beinni útsendingu klukkan 20 á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×