Íslenski boltinn

Hallbera Guðný í atvinnumennsku - samdi við Piteå

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hallbera Guðný skoraði 15 mörk í 18 leikjum með Valskonum í Pepsi-deildinni 2010.
Hallbera Guðný skoraði 15 mörk í 18 leikjum með Valskonum í Pepsi-deildinni 2010. Mynd / Stefán
Landsliðskonan Hallbera Guðný Gísladóttir hefur gengið frá samningi við sænska knattspyrnuliðið Piteå. Á heimasíðu félagsins kemur fram að Hallbera sé nýjasta púslið í lið Piteå sem ætlar sér stóra hluti á næsta ári eftir að hafa hafnað í 10. sæti af 12 liðum á síðustu leiktíð.

„Ég hef unnið íslensku deildina fimm sinnum á sex árum. Nú þarf ég nýja áskorun og Allsvenskan er frábært tækifæri fyrir mig til þess að verða betri leikmaður. Ég hef einnig heyrt góða hluti um Piteå frá íslenskum leikmönnum hér í Svíþjóð. Ég hlakka mikið til að mæta til leiks," segir Hallbera í viðtali við heimasíðu félagsins.

Hallbera, sem verður 26 ára á árinu, hefur leikið 26 landsleiki og verið fastamaður í landsliðinu undanfarin ár. Hún hefur ýmist leikið í stöðu vinstri bakvarðar eða á vinstri kanti. Hún er uppalin á Akranesi en hefur leikið með Valskonum undanfarin ár.

„Þetta er í fyrsta sinn sem Hallbera yfirgefur Ísland til þess að spila með erlendum félagsliðum. Hún einbeitti sér áður að náminu sem var ástæða þess að hún hélt sig í heimalandinu. Auðvitað erum við í skýjunum með að hún hafi valið að spila með okkur frekar en þeim liðum sem við erum í samkeppni við hér í Svíþjóð eða í Bandaríkjunum," segir Leif Strandh yfirmaður íþróttamála hjá Piteå.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×