Enski boltinn

Coleman ráðinn landsliðsþjálfari Wales

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Chris Coleman situr fyrir svörum blaðamanna í dag.
Chris Coleman situr fyrir svörum blaðamanna í dag. Nordic Photos / Getty Images
Knattspyrnusamband Wales hefur staðfest að Chris Coleman hafi verið ráðinn þjálfari velska landsliðsins og verður hann þar með eftirmaður Gary Speed sem lést seint á síðasta ári.

Þó hefur ráðningin verið nokkuð umdeild enda hafa leikmenn sjálfir lýst því yfir að þeir vildu að Raymond Verheijen, aðstoðarmaður Speed, yrði ráðinn. Landsliðsfyrirliðinn Aaron Ramsay hefur þegar sagt að leikmönnum þótti leiðinlegt að þeir voru ekki hafðir með í ráðum.

Coleman er 41 árs gamall og því ári yngri en Speed þegar sá síðarnefndi lést í nóvember síðastliðnum. Hann hóf feril sinn hjá Fulham árið 2003 og stýrði liðinu í fjögur ár. Hann hefur síðan verið hjá Real Sociedad, Coventry og nú síðast gríska liðinu Larissa en hann hætti þar fyrr í mánuðinum.

„Þetta hefur verið mjög erfitt ferli," sagði Jonathan Ford, framkvæmdarstjóri velska knattspyrnusambandsins. „Við skoðuðum alla kosti og tókum tillit til skoðanna starfsmanna, leikmanna og stuðningsmanna liðsins," bætti hann við.

„Við vildum þó bera virðingu fyrir Gary og ekki taka þátt í opinberri umræðu um ráðningu eftirmanns hans. Við viljum halda áfram því góða starfi sem hann var að vinna og teljum að Chris Coleman sé rétti maðurinn til að leysa það verkefni af hendi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×